Álver ekki lausn til frambúðar

"Mér finnst mjög eðlilegt að margir séu mjög sárir og áhyggjufullir á Austurlandi, það er að segja þeir sem hafa trúað á þessar framkvæmdir og að af þeim yrði. Því að það er ekkert annað í boði, sem komið hefur frá núverandi stjórnvöldum, til styrktar byggðinni," segir Þuríður Backman, þingmaður Vinstri grænna á Austurlandi. Hún telur það rangt að halda einu stórverkefni að fólki og engu öðru og álverið sé ekki lausn til frambúðar almennt.

Að hennar sögn sjá Vinstri grænir það fyrir sér að jafna þurfi aðstöðu fólks, þannig að það verði ekki dýrara fyrir fólk að velja þann kost að búa úti á landsbyggðinni. "Það þarf að gera atvinnulífinu kleift að byggja sig upp á sínum eigin forsendum. Ef við lítum á sjávarútveginn fyrir austan þá er kvótinn að miklu leyti farinn í burtu, smábátarnir eru farnir og þessi sjávarpláss eru orðin mjög veik. Það er margt sem getur verið sjálfsprottið á hverjum stað ef það bara fær að þróast eftir eigin forsendum. Það sem þarf virkilega að gera fyrir þennan fjórðung núna og stjórnvöld ættu þá að einbeita sér að, er að taka þessum úrskurði og einbeita sér í að fara í veglega uppbyggingu," segir Þuríður. Sem dæmi um það nefnir hún að bæta þurfi vegakerfið, koma upp lifandi háskóla og þar með styrkja æðri menntun í fjórðungnum og ýmislegt fleira.

Fjórðungurinn hefur upp á margt að bjóða

"Hafi menn trú á álverum, sem ég hef ekki, þá er koma álvers bara bónus fyrir fjórðung eins og Austurland, sem er veikur fyrir. Aðeins meira en ekki líf eða dauði," segir Þuríður. Hún telur að mikill munur sé á þeim svæðum sem ekki hafi einblínt eins á álverið og þeim sem það hafi gert og nefnir Djúpavog sem dæmi. Þar haldi fólk áfram að lifa og vilji reyna að búa áfram. Þetta snerti byggðarlögin misjafnlega og andleg líðan fólks sé eftir því. "Mér finnst þetta mjög mikill ábyrgðarhluti og á ábyrgð stjórnvalda að setja þetta svona fram. Fjórðungurinn hefur upp á margt að bjóða og við þurfum bara tækifæri til þess að nýta það með sjálfbærum hætti. Þá er ég til dæmis að tala um strandveiðarnar, geta byggt upp landbúnað og svo framvegis," segir Þuríður.

Að mati hennar snýst þetta um miklu fleira en komu álvers; um breytta byggðastefnu og breytta áherslu varðandi skiptingu kvótans. Hún segir að það verði að tryggja fólki einhvers konar lágmarksstöðugleika og það verði ekki gert nema með einhvers konar byggðatengingu á kvótanum

"Í mínum huga og í mínum flokki þá er álver ekki hluti af byggðastefnu. Það verður aldrei til þess að skapa festu nema í ákveðnum radíus í kringum þann stað sem álverið verður sett niður og því er ekki einu sinni að treysta að fólk frá viðkomandi svæði muni til lengri tíma vinna við þetta álver, því það er einhæf vinna rétt eins og fiskvinnslan. En ég veit að það eru margir með miklar væntingar til þess tíma meðan á framkvæmdum stendur og alla þjónustuna í kring. Það er eðlilegt en það er ekki gott að leggja svona upp, en svo bregst það og hvað er þá eftir?" segir Þuríður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert