Skipulagsstofnun leggist gegn álveri Reyðaráls

Náttúruverndarsamtök Íslands telja að Skipulagsstofnun beri lögum samkvæmt að leggjast skilyrðislaust gegn byggingu og starfrækslu fyrirhugaðs álvers Reyðaráls hf. í Reyðarfirði með allt að 420.000 tonna árlegri framleiðslugetu. Framkvæmdin og rekstur álversins hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, samkvæmt skilningi laganna, þ.e. að um sé að ræða framkvæmd sem hafi veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða valdi verulegum spjöllum á umhverfinu sem ekki sé hægt að að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Náttúruverndarsamtökin hafa skilað athugasemdum vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers. Leggja samtökin í greinargerð áherslu á að íslensk stjórnvöld og Reyðarál hf. fari að alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga og að skýr grein verði gerð fyrir því hver beri ábyrgð á þeim brotum á loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna sem gert sé ráð fyrir í matsskýrslu Reyðaráls, í hvaða formi sem sérákvæði íslenskra stjórnvalda við Kyoto-bókunina í loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna kunni að vera samþykkt. „Sterk rök liggja til þess að fyrirhuguð framkvæmd sé ótímabær og að einfaldasta og sterkasta mótvægisaðgerð við þeim verulegu óafturkræfu umhverfisáhrifum sem orsakast af fyrirhugaðri losun á miklu magni af gróðurhúsalofttegundum sé frestun á framkvæmdum þar til lokið er þróun nýrrar tækni til álbræðslu. Það myndi einnig gera fyrirhugaða rafskautaverksmiðju með tilheyrandi PAH-mengun óþarfa. Margvísleg rök eru fyrir þessari niðurstöðu en þyngst vega alþjóðlegar skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og forsendur orkuöflunar fyrir álverið, Kárahnjúkavirkjun. Virkjunin mun valda stórkostlegum óafturkræfum umhverfisáhrifum og uppfyllir ekki skilyrði sérákvæðis íslenskra stjórnvalda um frávik frá Kyoto-bókun loftslagssáttmála SÞ," segir í greinargerðinni.< Jafnframt krefjast samtökin þess að Skipulagsstofnun taki samtímis til umfjöllunar og ákvörðunar tengda þætti við virkjun og álbræðslu, m.a. vegna sameiginlegrar úttektar á þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum, og vegna vafa um hvort orka frá Kárahnjúkavirkjun falli undir skilgreiningu um endurnýjanlega orku í sérákvæði íslenskra stjórnvalda við Kyoto-bókun loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert