Álverið mun valda mjög mikilli mengun

Náttúruvernd ríkisins hefur skilað umsögn sinni til Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Í ljósi framlagðra gagna telur Náttúruvernd, að matið sýni að ekki verði um sjálfbæra nýtingu á vatnsorku Íslendinga að ræða og að álverið muni valda mjög mikilli mengun. Matsskýrslan sýni ekki afdráttarlaust að Reyðarfjörður sé heppilegur fyrir "risa álver", eins og segir í niðurstöðum umsagnarinnar.

Ef af byggingu álvers verður er það skoðun stofnunarinnar, að 280 þúsund tonna ársframleiðsla sé of stórt álver, en í fyrri umsögn sinni taldi Náttúruvernd ríkisins að ekki bæri að leyfa meira en 120 þúsund tonna álver með möguleikum á stækkun, ef rannsóknir sýndu að það væri óhætt.

Álver veldur álagi og skemmdum á lífríki

Náttúruvernd ríkisins segir það ljóst að mengun muni valda álagi á lífríki og skemmdum á því, bæði í sjó og á landi. "Gróðurfar mun breytast, dýr verða í hættu, t.d. staðbundinn stofn hreindýra o.s.frv. Önnur efni, eins og gróðurhúsalofttegundir, sem ekki eru talin valda beinum skemmdum, munu stuðla að auknum gróðurhúsaáhrifum, sem nú er almennt viðurkennt," segir m.a. í umsögninni.

Náttúruvernd ríkisins segir mjög mikið magn kerbrota koma frá álverinu, eða um 10 þúsund tonn á ári og í þeim séu mjög mengandi efni, s.s. þungmálmar. Samkvæmt matsskýrslu standi til að farga kerbrotunum á landi með frárennsli til sjávar en ekki í flæðigryfjum eins og til stóð og telur stofnunin það betri kost. En það vekur furðu Náttúruverndar að ekki sé gert ráð fyrir sérstakri hreinsun á frárennsli. Ekki sé fjallað um endurvinnslu á kerbrotum í matsskýrslunni og heldur ekkert um möguleika á að eyða þeim eiturefnum sem hægt er. "Í ljósi þess magns sem um er að ræða virðist sem að kynslóðir framtíðarinnar eigi að taka við þessum vanda," segir ennfremur í umsögn Náttúruverndar.

Stofnunin segir að við vissar aðstæður muni styrkur mengunar í lofti verða mjög hár og langt fyrir ofan viðmiðunarmörk, sem mönnum og skepnum séu ætluð. Einnig sé ljóst að þennan styrk verði að skoða með tilliti til vinnuverndarsjónarmiða og hvort yfirleitt sé hægt að leyfa íbúabyggð og dýrahald innan þynningarsvæðisins.

Íbúar eiga rétt á heilnæmu lofti

"Þynningarsvæðið er komið ansi nálægt þéttbýlinu og fylgir einkennilega mörkum friðlandsins. Virðast mörk þynningarsvæðisins eingöngu hafa verið sett við friðlandið af hagkvæmnisástæðum. Náttúruvernd ríkisins var ekki kynnt mörkin. Stofnunin telur sýnt að þessir reikningar fyrir þynningarsvæðið standist ekki að öllu leyti og vísar m.a. í tillögur Veðurstofu Íslands um þörf á frekari rannsóknum á samspili veðurfars og mengunar. Náttúruvernd ríkisins ítrekar að hér er um mjög stórt álver að ræða í þröngum firði og eiga íbúar svæðisins sem og náttúran fullan rétt á heilnæmu lofti," segir einnig í umsögninni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert