Landsvirkjun segir umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar innan viðunandi marka

Stöðvarhús virkjunarinnar verður inni í fjallinu undir Teigsbjargi. Að því …
Stöðvarhús virkjunarinnar verður inni í fjallinu undir Teigsbjargi. Að því munu liggja 650-700 metra löng aðkomugöng. Landsvirkjun

Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar eru innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Þetta er niðurstaða Landsvirkjunar og kemur fram í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sem lögð hefur verið fyrir Skipulagsstofnun.

Samkvæmt skýrslunni verða með Kárahnjúkavirkjun virkjaðar í einni virkjun Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fljótsdal á Austurlandi. Árnar koma upp í norðausturhluta Vatnajökuls og renna norðaustur um Jökuldal og Fljótsdal að sameiginlegum ósi við Héraðsflóa. Til virkjunarinnar verður einnig veitt vatni úr ám á Fljótsdalsheiði og á Hraunum. Áhrifasvæði framkvæmdarinnar nær frá hálendi við Vatnajökul og út á Jökuldal og Fljótsdal, með ánum, allt til Héraðsflóa. Gert er ráð fyrir að virkjunin verði byggð í tveimur áföngum, allt að 625 MW í fyrri áfanga í einum verkhluta og 125 MW í síðari áfanga sem skiptist í þrjá verkhluta. Efni matsskýrslunnar og tillaga að sérstöku svæðisskipulagi fyrir Kárahnjúkavirkjun verður kynnt næstu daga og vikur, m.a. í Opnu húsi um Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi og í Reykjavík, þar sem fólki gefst kostur á að kynnast verkefninu betur, leita svara við spurningum og gera athugasemdir. Ákveðið er að Opið hús verði í Reykjavík 17. maí nk. og á þremur stöðum á Héraði 30. maí, 31. maí og 1. júní nk. Skipulagsstofnun ætlar sér sex vikur til að kynna skýrsluna og taka á móti athugasemdum. Hinn 15. júní er gert ráð fyrir að kynningu verði lokið og næstu fjórar vikurnar verði unnið úr athugasemdum. Búist er við að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð sinn 13. júlí nk. ef úrvinnsla athugasemda tekur ekki meira en fjórar vikur. Kærufrestur vegna úrskurðarins er fjórar vikur og rennur því út 10. ágúst. Berist kæra hefur umhverfisráðherra átta vikur til að úrskurða eða til 5. október. Skýrslan, sem er 168 bls., mun frá og með morgundeginum liggja frammi á skrifstofum Austur-Héraðs, Fellahrepps, Fljótsdalshrepps og Norður-Héraðs. Einnig liggur skýrslan frammi á Bókasafni Héraðsbúa á Egilsstöðum, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun í Reykjavík. Þá verður skýrslan aðgengileg á vefsíðunni www.karahnjukar.is, á morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert