Aðstandendur Reyðaráls í skoðunarferð við Kárahnjúka

Frá kynnisferð að Kárahnjúkum.
Frá kynnisferð að Kárahnjúkum. mbl.is/Davíð Logi

Aðstandendur Reyðaráls hf., félagsins sem stofnað var til að kanna forsendur fyrir álveri við Reyðarfjörð, voru í vikunni á ferð við Kárahnjúka og nutu m.a. leiðsagnar Sigurðar St. Arnalds, verkefnisstjóra umhverfismats Kárahnjúkavirkjunar. Þetta var um 20 manna hópur sem í voru menn frá Hydro Aluminium í Noregi og fulltrúar íslensku fjárfestanna í Hæfi.

Fram kemur á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar að Kárahnjúkasvæðið hafi verið skoðað að austanverðu og síðan Fljótsdalsheiði og svæðið neðan Eyjabakka. Fulltrúar Landsvirkjunar í ferðinni voru Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, Björn Stefánsson og Árni Benediktsson. Kvöldið áður sat hópurinn kynningarfund á Egilsstöðum þar sem fjallað var um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Þann fund sat einnig Friðrik Zophusson,forstjóri Landsvirkjunar. Reyðarál hf., sameiginlegt framkvæmdafyrirtæki Hydro Aluminium as og Hæfis hf., var stofnað 13. janúar 2000 með það að markmiði að skipuleggja væntanlega starfsemi til undirbúnings byggingar álverksmiðju að Hrauni í Reyðarfirði. Kárahnjúkavefurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert