Rafskautaverksmiðja með um 90 starfsmönnum reist í fyrsta áfanga

Áætlanir Reyðaráls um 240-280 þúsund tonna framleiðslu í fyrsta áfanga fyrirhugaðs álvers gera það að verkum að fyrirtækið telur að reisa þurfi rafskautaverksmiðju á sama tíma og álverið í stað þess að bíða eftir öðrum áfanga eins og áður hafði verið gert ráð fyrir. Reiknað er með að níutíu starfsmenn þurfi við rafskautaverksmiðjuna.

„Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi álversins verði meira en tvöfalt stærri en miðað við upprunalegar áætlanir," segir Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls. „Þetta er því fremur stórt álver á alþjóðlegan mælikvarða og öll slík álver erlendis eru með eigin rafskautaverksmiðju. Menn sjá ekki fram á að nægileg framleiðslugeta á rafskautum sé fyrir hendi annars staðar. Hún verður því hluti af framleiðsluferlinu og undir sömu stjórn og aðrir hlutar álversins." Samkvæmt nýjum áætlunum Reyðaráls er til skoðunar að kerbrot úr álverinu verði grafin á landi, en ekki fargað á ströndinni eins og gert er í Straumsvík og Hvalfirði. Geir segir að það sé vegna ólíkra aðstæðna, straumar séu til dæmis meiri í Straumsvík en Reyðarfirði, og því örari skipti á sjó. Geir segir að grafa þurfi töluvert stórar gryfjur undir kerbrotin, en að nægilegt pláss sé fyrir þær og fyrirhugaða rafskautaverksmiðju á athafnasvæði álversins. Reyðarál mun ráðast í viðbótarrannsóknir á umhverfisáhrifum álversins, einkum á veðurfari og straumum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert