NAUST ályktar gegn Kárahnjúkavirkjun

Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa sent frá sér ályktun þar sem varað er við þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Austurlandi á næstu árum í tengslum við NORAL-verkefnið. Segir í ályktuninni að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir ásamt tengdum veitum og raflínum muni hafa meiri og víðtækari áhrif en nokkur virkjun eða virkjanaröð sem hefur verið framkvæmd á Íslandi, og muni ákvörðun um hana því skipta sköpum fyrir náttúruvernd hérlendis.

Þá segir í ályktuninni að þessar hugmyndir gangi þvert á framkomnar tillögur um Snæfellsþjóðgarð, sem gæti orðið lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og mannlíf á Austurlandi um langa framtíð. Virkjunarhugmyndin feli meðal annars í sér risavaxna stíflu í Gljúfrinu mikla við Fremri-Kárahnjúk og ofan hennar uppistöðulón á stærð við Lagarfljót innan Egilsstaða. Vatni úr lóninu yrði veitt um jarðgöng yfir í Fljótsdal og í Lagarfljót. Bæði vatnsföllin, Jökulsá á Dal og Lagarfljót, myndu gerbreytast. Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa í nærfellt þrjá áratugi varað við afleiðingum svo stórfelldra vatnaflutninga á náttúru landsins og vilja ítreka þá aðvörun hér. Með fyrirhugaðri veitu Jökulsár í Fljótsdal og tilheyrandi aðveitum yrði svæðið í kringum Snæfell einnig undirlagt mannvirkjum. Verði endanleg stærð álvers 480 þúsund tonn, kallar það líklega á aðveitu úr Jökulsá á Fjöllum með lóni í Arnardal. Þessar tengingar gera Kárahnjúkavirkjun ennþá ískyggilegri en ella frá verndarsjónarmiði," segir í ályktuninni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert