„Hurðin“ úr Titanic seld á 100 milljónir

Skiptar skoðanir eru á því hvort bæði Jack og Rose …
Skiptar skoðanir eru á því hvort bæði Jack og Rose hefðu komist fyrir á plötunni.

Flekinn umdeildi úr kvikmynd James Cameron, Titanic, hefur verið seldur á 718.750 Bandaríkjadali eða tæpar 100 milljónir íslenskra króna.

Var flekinn til sölu á uppboði veitingastaðarins Planet Hollywood, sem státar af gríðar stóru safni leikmuna og búninga úr kvikmyndum. Seldist svipa Indiana Jones úr Temple of Doom myndinni einnig á uppboðinu fyrir 525 þúsund Bandaríkjadali eða tæpar 73 milljónir. 

Umdeildur fleki

Miklar umræður hafa skapast um flekann, sem margir hafa haldið að sé hurð, en í myndinni liggur Kate Winslet, sem fer með hlutverk Rose, á flekanum eftir að skipið Titanic klofnar í tvennt og sekkur í Atlantshafið.

Farþegar skipsins falla í sjóinn og bíða þar í veikri von um að björgunarbátar komi þeim til bjargar. Jack, karakter Leonardo DiCaprio, er aftur á móti ofan í ísköldu hafinu og rígheldur í flekann þar til hann að lokum deyr úr kulda. 

Hafa margir haldið því fram að bæði Rose og Jack hefðu komist fyrir á flekanum, og þar með bæði komist lífs af, frá því að myndin var frumsýnd árið 1997.

Hefðu þau bæði getað komist fyrir?

James Cameron hefur tjáð sig um deilur aðdáenda myndarinnar og sagði að Jack hefði dáið sama hvað, þannig væri handritið einfaldlega. 

„Kannski við höfum gert mistök og platan hefði mátt vera aðeins minni, en gaurinn var alltaf að fara niður [í Atlantshafið],“ sagði Cameron í þætti Mythbusters árið 2012.

Kvaðst leikstjórinn enn þann dag í dag fá tölvupósta frá fólki sem væri æft yfir óþörfum dauðdaga Jack.

Platan er nákvæm eftirlíking af braki sem fannst úr skipinu sem sökk árið 1912. Er flekinn 2,4 metrar á lengd og 1 metri á breidd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert