Sjaldgæf sjón er Johnson og Starmer minntust Amess

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Sir Keir Starmer, leiðtogi stjórnarandstöðunnar þar í landi, viku flokkslínum til hliðar um stund í dag þegar þeir lögðu saman blómsveig að kirkju í Leigh-on-Sea, austur af Lundúnum, þar sem David Amess, kollegi þeirra úr þinginu, var stunginn til bana í gær.

Það gerðu Lindsay Hoyle, forseti breska þingsins, og Priti Patel innanríkisráðherra sömuleiðis.

Lögregluyfirvöld í Bretlandi rannsaka morðið á Amess sem hryðjuverk og talið er að 25 ára Breti hafi verið einn að verki. Hann var handtekinn í gær og situr nú í varðhaldi.

„Svona voðaverk eru algjörlega röng,“ segir Patel við AFP og bætir við: „Við getum ekki leyft þessu að hafa áhrif á lýðræðisleg störf.“

Hún segir að rannsókn lögreglu sé í gangi, eins og vitað sé, en einnig sé öryggi þingmanna breska þingsins til athugunar.

Hún lýsti Amess sem „manni fólksins“, sem var myrtur við það sem hann elskaði mest að gera: þjóna kjósendum sínum í sínu heimakjördæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert