„Ég hef ekki hætt að gráta“

AFP

„Allir voru glaðir á leiðinni út. Síðan heyrði ég háan hvell, sá reyk og heyrði öskur,“ sagði Chris Parker. Hann er 33 ára og er heimilislaus og hefur oft komið í anddyrið á Manchester Arena í lok tónleika, líkt og þeirra sem Ariana Grande hélt í gærkvöldi. 22 létu lífið og 59 særðust í sjálfsvígssprengjuárás sem gerð var þar í gærkvöldi.

„Ég kastaðist í gólfið en náði að standa upp. Í stað þess að flýja ákvað ég að reyna að hjálpa,“ sagði Parker. „Það lá fullt af fólki á gólfinu.“

Parker hófst handa við að aðstoða slasaða. „Ég sá litla stelpu [...] hún var ekki með fætur. Ég vafði hana inn í stuttermabol og spurði hvar foreldrar hennar væru. Hún sagði að pabbi hennar væri í vinnunni en mamma hennar væri uppi,“ sagði Parker og kvaðst halda að móðir stúlkunnar hefði látið lífið.

Parker hlúði síðar að konu sem dó í örmum hans. „Hún var á sjötugsaldri og sagðist hafa komið á tónleikana með fjölskyldunni. Ég hef ekki hætt að gráta, þetta voru tónleikar ætlaðir börnum. Ég get ekki hætt að hugsa um öskrin og lyktina.“

Lög­reglu­yf­ir­völd í Manchester greindu frá því um há­deg­is­bil að tveir hefðu verið hand­tekn­ir í tengsl­um við sjálfs­vígs­árás­ina. Auk 23 ára karl­manns­ins sem áður var búið að greina frá hefði einnig einn verið hand­tek­inn í Fallowfield, í suður­hluta Manchester.

Frétt Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert