Bandaríkin ætla að standa við „heimskulegt“ samkomulag

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að menn muni standa við …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að menn muni standa við samkomulagið þrátt fyrir að menn væru lítt hrifnir af því. AFP

Bandaríkjastjórn hefur staðefst að hún muni standa við samkomulag við áströlsk stjórnvöld um innflytjendamál. Donald Trump Bandaríkjaforseti lét eitt sinn hafa eftir sér að samkomulagið, sem var gert í tíð Barack Obama, væri „heimskulegt“. En samkvæmt því geta 1.250 hælisleitendur í Ástralíu farið til Bandaríkjanna.

Í staðinn hefur ríkisstjórn Ástralíu samþykkt að taka á móti fólki frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador sem hefur sótt um hæli í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er nú staddur í opinberri heimsókn í Ástralíu. Hann sagði, eftir að hafa fundað með Malcolm Turbull, forsætisráðherra Ástralíu, að menn myndu standa við gerðan samning þrátt fyrir að menn væru lítt hrifnir af þessu. 

Áströlsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að neitað að taka á móti hælisleitendum. Flestir eru karlmenn sem koma frá Íran, Afganistan og Írak. Stjórnvöld hafa vistað fólkið í búðum fyrir hælisleitendur sem eru staðsettar í Nauru og Papúa Nýju-Gíneu í Kyrrahafi. 

Fáist það staðfest að um flóttafólk sé að ræða, þá fær það ekki hæli í Ástralíu heldur er flutt til Nauru, Kambódíu eða Papúa Nýju-Gíneu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert