Ræddu við stúlkuna áður en hún lést

Frá Noregi.
Frá Noregi. norden.org

Afi og amma norsku stúlkunnar sem fannst látin í sumarhúsi í Noregi að kvöldi nýársdags ræddu við hana í síma nokkrum klukkustundum fyrir andlát hennar. Þegar bráðaliðar komu á vettvang var lík stúlkunnar kalt og stíft og rannsakar lögregla meðal annars hversu lengi stúlkan hafði verið látin þegar móðir hennar hafði samband við neyðarlínuna.

Norski fréttamiðillinn VG greindi frá því í gær að nokkrar óopnaðar jólagjafir frá móðurinni til stúlkunnar hefðu fundist í bústaðnum. Verjandi móðurinnar segir ekkert óvenjulegt við það, mæðgurnar hafi alltaf geymt nokkrar gjafir fram að fyrsta kvöldi nýs árs. Norska ríkisútvarpið greinir frá því að samkvæmt móðurinni hafi stúlkan skyndilega hnigið niður um kvöldið og hún hafi reynt að endurlífga dóttur sína án árangurs.

Verjandi móðurinnar hefur farið yfir gögn úr farsímum mæðgnanna síðustu tvo daga ársins en þar kemur fram að mæðgurnar ræddu við afa og ömmu stúlkunnar. Segir hann samtölin ósköp eðlileg og ekkert hafi bent til þess að eitthvað amaði að stúlkunni eða móður hennar. Afi og amma stúlkunnar hafi óskað eftir að vera yfirheyrð vegna rannsóknar málsins í von um að geta gefið upplýsingar.

Verjandinn segir einnig að ekkert sé athugavert við það að lík stúlkunnar hafi verið orðið kalt þegar bráðaliðar komu á vettvang þar sem hún hafi verið afar grönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert