Fundu óopnaðar jólagjafir til stúlkunnar

Unglingsstúlkan fannst látin í sumarbústað í Noregi.
Unglingsstúlkan fannst látin í sumarbústað í Noregi. norden.org

Lögregla telur hugsanlegt að norska unglingsstúlkan hafi verið látin í nokkra daga áður en móðir hennar hafði samband við neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum norska fjölmiðilsins VG fundust óopnaðar jólagjafir frá móðurinni til stúlkunnar fundust í sumarhúsinu sem mæðgurnar dvöldu í.

VG greinir einnig frá því að lík stúlkunnar hafi verið kalt og stíft þegar sjúkralið kom á vettvang. Þá var stúlkan afar grönn þegar hún lést en fyrstu niðurstöður krufningar benda til þess að hún hafi látist úr vannæringu. Móðir stúlkunnar er grunuð um alvarlega vanrækslu og að hafa látið undir höfuð leggjast að aðstoða dóttur sína.

Ekki er vitað hvenær stúlkan sást síðast á lífi og er það meðal þess sem norska lögreglan rannsakar. Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um aðstæður í bústaðnum þegar sjúkralið kom á vettvang.

Norskir fjölmiðlar hafa greint frá því að stúlkan hafi glímt við átröskun í nokkurn tíma og verið lögð í einelti stóran hluta skólagöngu sinnar. Stúlkan hætti að mæta í skólann í byrjun nóvember og í lok mánaðarins var lögregla send að sumarhúsi mæðgnanna að beiðni barnaverndar til að kanna ástand stúlkunnar. Lögregla ók ómerktum bíl framhjá húsinu en þótti allt benda til þess að þar væri enginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert