Hollande og Gayet saman í höllinni

Fimm starfsmenn franska forsetaembættisins hafa verið færðir til í starfi eftir að myndir voru birtar af François Hollande, forseta Frakklands, og leikkonunni Julie Gayet saman í Elysée höll. 

Það var í janúar sem fréttir af sambandi Hollande og Gayet birtust í fjölmiðlum og slitu hann og sambýliskona hans samvistir í kjölfarið. Þau Hollande og Gayet hafa farið afar leynt með sambandið en í síðustu viku voru birtar myndir af þeim í Elysée höll. 

Það var tímaritið Voici sem birti myndirnar, þrjár talsins, og kom fram að þær hefðu verið teknar í október. Ekki hefur tekist að finna út hver tók myndirnar en talið er öruggt að það sé einhver starfsmaður forsetaembættisins.

Fjögur af þeim fimm sem voru færð til í starfi voru ráðin til hallarinnar á þeim tíma sem Nicolas Sarkozy var forseti. 

Eftir að þau Hollande og Valerie Trierweiler slitu samvistum skrifaði hún bók um sambandsslitin og lýsti forsetanum sem kaldlyndum egóista sem fyrirlíti fátæka. Bókin hefur verið þýdd á tólf tungumál og kom meðal annars út í Bretlandi í síðustu viku.

Frétt Libération

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert