Óttast að missa barnið frá sér vegna ofbeldis fyrrverandi

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir því fyrir sér hvort hún þurfi að lifa í ofbeldissambandi við fyrri maka þangað til barn þeirra verður fullorðið. 

Sæl,

hvernig setur maður mörk gegn narsisista? Nú deili ég barni (forsjá og umgengni) með einum slíkum og ofbeldishegðunin í gegnum árin gagnvart mér og mínu fólki virðist einhvern veginn aldrei ætla hætta.

Ég hef áhyggjur hvaða áhrif þetta mun hafa á núverandi hjónaband og barnið mitt sem finnur það alveg að foreldrar eru ekki vinir. Grunar mig að það sé talað mjög illa um mig og mína þeim megin miðað við hegðunina og orðin sem viðkomandi leyfir sér að segja og gerir í skrifuðum skilaboðum beint til okkar.

Er ég að lifa í ofbeldissambandi þar til barnið mitt er komið á fullorðinsár ef ég ætla ekki að eiga í hættu að missa barnið frá mér?

Kveðja,

L.

Þarf foreldri að sætta sig við yfirgang fyrrverandi maka til …
Þarf foreldri að sætta sig við yfirgang fyrrverandi maka til þess að halda friðinn? Vika Strawberrika/Unsplash

Sæl/l L

Takk fyrir þessa spurningu.

Það mikilvægasta sem þú getur gert er að setja fyrrverandi maka þínum skýr mörk. Hafa öll samskipti í lágmarki og einungis svara því sem skiptir máli og viðkemur barninu ykkar. Það er því miður lítið sem þú getur gert til þess að hafa áhrif á hvað fyrrverandi maki þinn gerir og/eða segir. En ef þú telur að orð hans og gjörðir hafi skaðleg áhrif á barnið ykkar (neikvætt tal um þig í eyru barnsins) þá getur þú leitað til barnaverndar, fengið ráð þaðan með hagsmuni barnsins ykkar að leiðarljósi.

Ég mæli með því að þú leitir til til dæmis Bjarkahlíðar, í þeirri von um að fá bjargráð í hendurnar, en þar er um að ræða lágþröskuldaþjónustu og þarf því ekki tilvísun frá öðrum aðilum til þess að fá viðtal. Bjarkarhlíð sinnir einstaklingum sem hafa sætt ofbeldi og vilja vinna með afleiðingar þess. Birtingarmyndir ofbeldis eru af ýmsum toga og allir sem telja sig hafa upplifað ofbeldi á einn eða annan hátt geta sótt sér þjónustu í Bjarkarhlíð.

Birtingamyndir ofbeldis geta verið ýmis konar:

  • Andlegt ofbeldi
  • Líkamlegt ofbeldi
  • Kynferðislegt ofbeldi
  • Eltihrellir
  • Fjárhagslegt ofbeldi
  • Vanræksla viðkvæmra hópa
  • Stafrænt ofbeldi
  • Mansal
  • Beint/óbeint ofbeldi gegn börnum
  • Ofbeldi sem felur í sér mismunun.

Bjarkarhlíð 

Einnig langar mig að benda þér á vefinn samvinnaeftirskilnad.is en þar er um að ræða námskeið sem foreldrar geta sótt með það að markmiði að bæta samskipti sín á milli með hag barnsins í fyrirrúmi. En auðvitað þurfa báðir foreldrar að vera í nokkuð góðu andlegu jafnvægi og fara á þetta námskeið með opin hug.

Vona að þetta hafi eitthvað hjálpað þér. Með innilegri von um betri tíð og bætt samskipti ykkar á milli.

Gangi þér vel! 

Bestu kveðjur, Tinna 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert