„Ég gat bara ekki yfirgefið hann“

Auðna ásamt kettinum Fehér.
Auðna ásamt kettinum Fehér. Ljósmynd/Aðsend

Auðna Hjarðar var í dýralæknanámi í Ungverjalandi þegar leiðir hennar og kattarins Fehér mættust. Fehér var villiköttur, við slæma heilsu og Auðna hlúði að honum. Þegar námi hennar í Búdapest lauk gat Auðna ekki hugsað sér að skilja hann eftir og stóð fyrir söfnun til þess að flytja hann heim til Íslands.

Hvernig gekk að koma Fehér heim til Íslands?

„Það gekk vel að koma honum heim eftir að allir pappírar voru komnir í lag, fyrir bæði MAST og einangrunarstöðina. Þetta er hinsvegar langt ferli.“

Voru einhverjar áskoranir sem þurfti að yfirstíga?

„Aðal áskorunin var að fjármagna flutninginn og finna út úr öllum dýralæknaheimsóknum til þess að allt gengi smurt fyrir sig á sjálfum flutningsdeginum. Það var líka ótrúlega mikil áskorun að finna út hvaða flugfélög buðu upp á að fljúga með gæludýr.“

Hvernig líður honum í dag?

„Fehér er ægilega glaður á Íslandi og sýnir mér það með endalausum knúsum og kossum.“

Fehér líður mjög vel á Íslandi.
Fehér líður mjög vel á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Það var ótrúleg tilviljun að Fehér endaði hjá mér. Ég hafði fóstrað aðra ketti fyrir stofnun sem sér um að bjarga hundum og köttum í Búdapest. Haustið 2021, eftir að ég er tiltölulega nýlent í Búdapest til að byrja nýja skólaönn, sé ég póst frá stofnuninni um þennan hvíta eldri kött sem átti að útskrifa af spítala en hafði ekkert heimili til þess að fara á. Ég ákvað að bjóðast til að taka við honum á meðan unnið væri að þvi að finna handa honum framtíðarheimili.“

„Svo leið tíminn og enginn vildi taka hann að sér. Það tók hann alveg nokkra mánuði áður en hann fór að treysta mér. Eftir á sér maður að hann var bara kvalinn og því lítið fyrir að láta koma nálægt sér.“

„Þegar hann fór í geldingu þá kom í ljós að eiginlega allar tennurnar í honum voru að rotna upp í honum og eftir að þær voru fjarlægðar þá birtist hreinlega nýr köttur. Hann fór að treysta mér og leyfði mér að byrja að knúsast aðeins í honum.“

„Tæplega tveimur árum síðar var ennþá enginn búinn að sýna áhuga á að gefa honum framtíðarheimili og ég gat bara ekki yfirgefið hann eftir allar þær raunir sem við höfðum gengið í gegnum saman.“

Mælirðu með að fóstra villiketti?

„Já, ég mæli innilega með því. Það tekur kannski tíma fyrir þá að hleypa þér að þeim, en þá verður maður að muna að þeirra líf fyrir var hreinlega að bjarga sér. Þeir eru ekki vanir þvi að einhver hugsi um þá. Mín reynsla hefur verið sú að þakklætið sem maður fær tilbaka frá þessum elskum er margfalt meira en frá nokkrum öðrum.“

Hver er ykkar daglega rútína?

„Ég byrja dagana yfirleitt frekar snemma, en hef byrjað að stilla vekjaraklukkuna örlítið fyrr eftir að ég fékk Fehér því hann vill gjarnan eiga smástund í knúsi áður en hann fær morgunmatinn sinn. Eftir morgunmat vill hann yfirleitt bara kúra undir sæng þó að ég þurfi að fara. Honum þykir ekkert mál að vera einn heima, svo lengi sem að hann fær morgun- og kvöldmat, hafi vatn i skálinni sinni og þurfi ekki að sofa einn á nóttunni.“

Fehér hefur lifað tímana tvenna. Er nú loks kominn á …
Fehér hefur lifað tímana tvenna. Er nú loks kominn á gott heimili þar sem fer vel um hann. Ljósmynd/Aðsend

Ertu með fleiri dýr á heimilinu?

„Það eru ekki fleiri dýr inni á heimilinu, en ég bý á sauðfjárbúi þannig að það eru dýr oft allt í kringum mig.“

Áttirðu gæludýr þegar þú varst yngri?

„Það hefur alltaf verið annað hvort eða bæði hundur og köttur á heimilinu mínu, svo lengi sem að ég man eftir mér. Auk þess að alast upp i kringum sauðfé og hesta.“

Kostirnir við að eiga kött?

„Það er alltaf einhver sem bíður eftir þér þegar þú kemur heim og þeir veita endalausa gleði.“

Ókostirnir við að eiga kött?

„Maður þarf að vera tilbuinn að eiga við hárlos, klóasnyrtingar og kostnað. Það má ekki gleymast að þetta eru lifandi verur sem maður þarf að næra og vera tilbúinn til að fara með til dýralæknis ef þess þarf.“

Hafið þið deilt saman einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum?

„Við höfum gengið í gegnum ótrúlega margt saman, það helsta sem kemur upp í hugann er þegar hann fékk ofnæmisviðbrögð við einhverju matarkyns og ég þurfti að baða hann daglega í tvær vikur með sérstöku sjampói til að vinna á ofnæminu. Hann var hrikalega móðgaður í fyrsta skiptið, aðeins rólegri í annað skiptið en eftir það fann hann að þetta fékk hann til að líða betur og hætti að slást við mig - sem betur fer.“

Hefur kötturinn einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Stuttu eftir að ég fékk hann í fóstur gekk hann í gegnum sykursýkisskeið, sem endaði á einhvern óskiljanlegan máta með traustu og rólegu umhverfi. Hann hefur verið með mataróþol sem ég náði nýlega að finna út að væri óþol við fisk og fiskivörum, það er auðvelt að sneiða framhjá þeim vörum með þvi að lesa innihaldslýsingar. Hann hefur einhverjar sérviskur eins og allir kettir sem ég hef kynnst, en það er langur listi sem maður bætir við liggur við á hverjum degi.“

Góð ráð frá Auðnu:

  • Finnið dýralækni sem þið treystið og dýrinu líður vel hjá, það er ótrúlega mikilvægt að dýrin stressist ekki öll upp við að hitta lækninn.
  • Gefið eldri dýrum tækifæri. Þó það sé skemmtilegt að fá sér kettling eða hvolp, þá eru þessi eldri yfirleitt með stóra persónuleika og sýna ykkur endalaust þakklæti ef þið leyfið þeim það.
  • Ekki gefa dýrunum bara eitthvað að borða, verið meðvituð um hvað fer ofan í þau, ef ske kynni að eitthvað færi illa í þau.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert