„Fann strax að kúlan var eitthvað sem ég vildi ekki fela“

Hin tvítuga Selma Lind Árnadóttir hefur haldið í sinn skemmtilega …
Hin tvítuga Selma Lind Árnadóttir hefur haldið í sinn skemmtilega stíl og leyft óléttukúlunni að njóta sín á meðgöngunni. Samsett mynd

Selma Lind Árnadóttir er tvítugur fagurkeri og er ófrísk að sínu fyrsta barni. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á hönnun, tísku, list og sköpun, en á meðgöngunni hefur hún lagt sig fram við að halda í sinn skemmtilega fatastíl og hefur leyft óléttukúlunni að njóta sín til fulls.

Aðspurð segist Selma hafa komist að því að hún væri ófrísk á hinn „klassíska máta“ – hún hafi verið viku sein á blæðingar og ákvað því að taka óléttupróf sem reyndist jákvætt.

Selma lýsir sjálfri sér sem „litlum wannabe tískugúru“ sem bráðum …
Selma lýsir sjálfri sér sem „litlum wannabe tískugúru“ sem bráðum verður mamma.

„Ég get ekki sagt að það hafi verið í planinu að vera tvítug og ólétt og var það því mikið sjokk þegar tvær skírar línur birtust á óléttuprófinu. Svo komu tvær vikur af miklum tilfinningarússíbana og óvissu varðandi hvert framhaldið yrði,“ rifjar Selma upp.

„Eftir því sem tímanum leið upplifði ég þó að þetta væri hlutverk sem ég treysti mér í. Ég ákvað á sama tíma að ég skyldi njóta mín í botn og vera stolt af því að vera ólétt stelpa þar sem mér finnst það vera smá tabú í dag að vera ólétt ung,“ bætir hún við. 

Selma ákvað strax að njóta sín og vera stolt af …
Selma ákvað strax að njóta sín og vera stolt af því að vera ófrísk ung.

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi segja að stíllinn minn sé fjölbreyttur. Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt, sumt virkar en annað ekki. Frá því ég var barn hef ég verið mikið fyrir það að vera öðruvísi, standa út úr og ég nota fötin mín mikið til þess. Ég sækist rosalega mikið í flíkur sem eru sérstakar og einstakar á einhvern hátt og helst eitthvað sem enginn annar á.“

Hefur fatastíllinn þinn breyst eftir að þú varðst ófrísk?

„Já að einhverju leyti, en frá byrjun tók ég þá ákvörðun að ég myndi reyna að láta meðgönguna breyta mér sem minnst og halda í minn stíl. Ég ákvað líka að reyna að sniðganga meðgönguföt þar sem mér finnst þau flest eiga það sameiginlegt að vera frekar hefðbundin og þau fela einnig flest öll óléttukúluna.“

Á meðgöngunni hefur Selma sniðgengið meðgöngufatnað og haldið í sinn …
Á meðgöngunni hefur Selma sniðgengið meðgöngufatnað og haldið í sinn stíl.

Tók það einhvern tíma að „læra“ að klæða óléttukúluna?

„Eiginlega ekki. Um leið og það fór að sjást á mér fann ég alla magabolina og lágu buxurnar í fataskápnum mínum og dró það fram. Ég fann strax að kúlan var eitthvað sem ég vildi ekki fela og vildi að hún nyti sín sem best. Ég hef í raun klætt mig út frá kúlunni frá 20. viku.“

Frá 20. viku hefur Selma klætt sig út frá óléttukúlunni.
Frá 20. viku hefur Selma klætt sig út frá óléttukúlunni.

Hvert sækir þú innblástur þegar kemur að meðgöngutísku?

„Út um allt myndi ég segja. TikTok og Pinterest eru kannski helstu miðlarnir sem ég leitast í. Ég upplifði samt að það sem ég sá á netinu var rosalega svipað og fátt sem kannski greip mig þegar ég leitaði af „pregnancy outfits“. Þannig að ég fæ í raun bara innblástur eins og áður, frá fötum sem mér finnst flott en ekki af sérstökum meðgöngu fötum. Svo kemur fataskápurinn hjá mömmu og ömmu alltaf sterkur inn.

Mér finnst ég samt fá mestan innblástur við að kíkja í fataskápinn minn og setja saman föt í huganum. Tíska og stíll er eitthvað sem hefur alltaf verið í undirmeðvitundinni minni og ég reyni ávallt að finna minn stíl á fólki í kringum mig, þ.e.a.s. hvernig ég gæti nýtt mér ákveðnar flíkur sem ég sé á öðrum og púslað við eitthvað annað fallegt.“

Þrátt fyrir að notast við miðla eins og TikTok og …
Þrátt fyrir að notast við miðla eins og TikTok og Pinterest segist Selma fá mestan innblástur við að kíkja í fataskápinn sinn og setja saman dress í huganum.

Hvaða flík/ur eru í mestu uppáhaldi þessa dagana?

„Uppáhaldsflíkin mín núna á meðan ég er ólétt er kjóll sem amma mín á. Mér finnst kúlan klæða kjólinn sérstaklega vel en ég efast um að ég muni fíla hann eins vel eftir meðgönguna. Öll síð pils eru líka í miklu uppáhaldi, sérstaklega svona undir lok meðgöngunnar þegar ég passa í fáar buxur.

Svo myndi ég kannski segja að mín „signature“ flík á meðgöngunni séu magabolir eða stuttar (e. cropped) flíkur þar sem kúlan fær að vera ber og njóta sín.“

Hér má sjá Selmu í kjólnum af ömmu hennar sem …
Hér má sjá Selmu í kjólnum af ömmu hennar sem hefur verið í mestu uppáhaldi á meðgöngunni.

Áttu þér uppáhaldsbúðir til að versla föt á meðgöngunni?

„Ég vinn í fataversluninni Yeoman á Laugaveginum og eru örugglega öll fötin sem ég hef verslað mér á meðgöngunni þaðan. Þar eru svo margar flíkur sem klæða kúluna vel. 

Annars fór ég beint í fataskápinn hjá ömmu þegar ég komst að því að ég væri ófrísk og rændi hálfum skápnum frá henni. Það eru margar flíkur sem hún gaf mér sem ég hef notað alla meðgönguna.

Ég hef reynt að komast sem mest hjá því að kaupa mér ný föt á meðgöngunni en þegar ég hef keypt mér eitthvað hef ég pælt mikið í því hvort flíkin sé þægileg, teygjanleg og hvort ég sjái fram á að nota hana eftir meðgönguna líka.“

Selma hefur aðallega verslað föt í Yeoman á meðgöngunni, en …
Selma hefur aðallega verslað föt í Yeoman á meðgöngunni, en hún hefur lagt upp úr því að fötin séu þægileg, teygjanleg og nýtist eftir meðgönguna líka.

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Mitt „go to“ lúkk er sítt pils, þröngur bolur, oftast magabolur, og svo peysa eða opinn jakki yfir. Svo eru það alltaf annað hvort strigaskór eða crocs-skór við. Upp á síðkastið hafa crocs-skórnir átt sigurinn.

Það gerir líka rosa mikið fyrir mig að klæða mig upp svona sérstaklega í lokin þegar manni líður meira og minna eins og hval.“

Sítt pils og magabolur hefur verið „go to“ lúkkið hennar …
Sítt pils og magabolur hefur verið „go to“ lúkkið hennar Selmu.

En þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Ég nýt þess í botn að fara eitthvert fínt og þykir ekkert skemmtilegra en að klæða mig fyrir tilefni núna í lok meðgöngunnar, jafnvel þótt ég endist kannski bara í klukkutíma en ekki allt kvöldið eins og áður, og þá leyfi ég ímyndunaraflinu að njóta sín. 

Ég notast rosa mikið við skart og þá kannski helst áberandi hálsmen svona í lokin þegar ég er í frekar látlausum flíkum. Annars er „of mikið“ línan ekki til hjá mér og enda ég alltaf í því sem mér finnst flottast og ég fíla mig best í.“

Selma notast mikið við áberandi hálsmen til að poppa dressin …
Selma notast mikið við áberandi hálsmen til að poppa dressin sín upp.

Er eitthvað sem þér hlakka til að klæðast eftir meðgönguna?

„Mig hlakkar eiginlega mest til að finna minn stíl aftur eftir meðgöngu og finna hvað klæðir mig og hvað ekki. Ég hef heyrt að það sé erfitt og átakanlegt að klæða sig aftur eftir meðgöngu þar sem líkaminn er búinn að breytast og ganga í gegnum mikið, en ég hef alltaf verið fyrir áskoranir og reyni frekar að líta á þetta sem skemmtilegt verkefni heldur en að kvíða fyrir því.“

Hvað er á óskalista hjá þér?

„Efst á óskalistanum mínum núna er einhver stór og flott „vintage“ taska sem hentar vel sem skiptitaska en líka bara taska sem er fullkomin hversdagslega seinna meir. Prada Denim Tote Bag er ein af þeim sem er á óskalistanum núna.“

Efst á óskalista Selmu er flott „vintage“ taska sem gæti …
Efst á óskalista Selmu er flott „vintage“ taska sem gæti nýst sem skiptitaska líka.

Ertu með einhver tískuráð fyrir ófrískar konur?

„Að klæðast því sem þeim líður best í og að það eru engar reglur um hvernig þú átt að klæða þig á meðgöngunni. Besta ráðið sem ég notast við er að öll augu sem horfa eru að horfa og glápa því þú ert „slay“.

Ég hef alltaf farið eftir því að sjálfsöryggið geri dressið og það sem öðrum finnst skiptir ekki máli. Ég hvet allar tilvonandi mæður til að prófa eitthvað nýtt, leika sér með fötin sín og vera óhræddar við að leyfa fallegu kúlunni að njóta sín.“

Selma hvetur tilvonandi mæður til að vera óhræddar við leyfa …
Selma hvetur tilvonandi mæður til að vera óhræddar við leyfa óléttukúlunni að njóta sín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert