Mættu á skútu á sveitaball

„Eftir að hafa legið yfir veðurspánni fram á kvöld var lagt af stað með nýrri áhöfn um áttaleytið föstudaginn 25. júní – með von um að sleppa nokkuð skammlaust út úr Skjálfanda áður en hvassviðri appelsínugulrar veðurviðvörunar næði til okkar. Í þetta sinn voru fimm nýjar konur sem slógust í för með okkur en Helena steig frá borði. Við vorum rétt lagðar af stað þegar við sáum hóp höfrunga nálgast skútuna úr vestri og í skamma stund léku þeir sér í straumnum við stafn skútunnar en hurfu svo á braut. Við settum upp framseglið og vindurinn feykti okkur af stað. Við sneiddum hjá Lundey og tókum svo stefnuna á Melrakkasléttu,“ skrifa Seigl­urn­ar, hóp­ur kvenna sem siglir um­hverf­is Ísland á seglskútu, í nýj­um pistli:

„Þetta var frábær dagur fyrir segl. Á framseglinu þeystumst við áfram, á allt að sjö hnútum, og sluppum við óvelkominn velting. Við söxuðum hratt á mílurnar og skoðuðum Mánáreyjar, Háey og Lágey norður af Tjörnesi þar sem sést gat á Háey. Nokkrir höfrungar kíktu aftur á okkur áður en við fórum fyrir Rauðanúp. Þá kom upp úr dúrnum að það var afmælisbarn um borð. Ásdís hafði ekki hátt um það en nú var sunginn afmælissöngurinn og spilað á þokulúður. Þegar komið var að Hraunhafnartanga fór heldur að bæta í vind og þá var kærkomið að skjóta okkur inn í fallegu höfnina á Raufarhöfn. Úti fyrir Raufarhöfn var vindurinn heldur betur búinn að sækja í sig veðrið og farinn að þenja sig upp í 17 m/s.

Þótt fáir sæjust á höfninni á Raufarhöfn skipaði hópur múkka og æðarfugla móttökunefnd. Í rólegheitunum, við bryggju, gæddum við okkur á gúmmelaði frá Gamla-Bauki þriðja kvöldið í röð. Sumir röltu svo og kíktu á bæjarlífið á meðan aðrar hvíldust um borð. Á Raufarhöfn er yndislegt kaffihús, Kaupfélagið, þar sem við fengum kaffi og góða drykki. Takk fyrir okkur! Kvöldgangan var tekin að heimskautagerðinu og smábátahöfninni í fallegri kvöldsól.

Raufarhöfn fór vel með okkur. Við vöknuðum svo snemma næsta dag til að lauma okkur aftur af stað á undan rokinu. Það var fallegur og bjartur dagur þegar við príluðum út til að losa landfestar. Stuttu seinna var framseglið aftur komið upp og við geystumst nú áfram í átt að Fonti á Langanesi.

Það var brakandi blíða. Stefnan var tekin á sólina og framseglið stóð áfram sína plikt þegar við brunuðum að Langanesi. Þegar við nálguðumst Font fór seglið að blakta og með framseglsfrímerki fórum við fyrir Font. Hver hefði trúað því að við færum aftur fyrir landshorn í nánast logni?

Litlar smáverur veifuðu við Font, þar voru Helena og Halldór. Við veifuðum til þeirra og við kvöddum Norðurland. Austurland tók við og þar með nýr kafli á ferðalaginu.

Brakandi blíða bakaði okkur á Finnafirði en smám saman lagðist mistur yfir landið. Um borð var þó enn sólstrandarstemning og því skellt í tapasveislu, flotið og notið og ukulele grafið upp úr farangursgeymsunni. Anna Karen hefur ekki alveg staðið við hliðarmarkmiðið í ferðinni, sem var að læra á vatnshelda ukulele-ið sitt, en nú var það flutt upp á dekk og teknir nokkrir tveggja-þriggja gripa slagarar; afmælissöngurinn, fyrir afmælisbarn gærdagsins og Seiglumömmur, Ég langömmu á, Súrmjólk í hádeginu og fleiri góðir. Ekki endilega óskalög allra svo það var tekið á það ráð að hringja í Sigga Hlö og biðja um óskalagið, Dansað á dekki með Fjörefni. Í þættinum heyrðist frá hópi kvenna sem var á leið á tónleika á Borgarfirði eystri og þar með var fræi sáð.

Ný stefna var tekin á Borgarfjörð eystri. Í fangi fjallahrings Borgarfjarðar renndum við inn að gömlu bryggjunni steinsnar frá ballinu. Það var ekki tími til að koma okkur úr útigöllunum heldur æddum við inn í félagsheimilið, á Sveitalíf Friðriks Ómars og Jógvans, með sjávarlyktina í fanginu. Þar mættust tvær hringferðir; þeirra rangsælis í kringum landið á húsbíl og okkar réttsælis í kringum landið á skútu. Nokkrum hlátrasköllum og dillum síðar röltum við út í sumarnóttina á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert