Vill banna 17. júní-blöðrur

Helena Óladóttir birti myndskeið á Facebook sem sýnir þegar Seiglurnar …
Helena Óladóttir birti myndskeið á Facebook sem sýnir þegar Seiglurnar veiddu óskemmda gasblöðru úr sjónum 18 dögum eftir 17. júní í fyrra. mbl.is

„Það eru til margar aðrar leiðir til að fagna 17. júní. Það eru mjög fáar blöðrur með fánanum okkar, veifum bara bómullarfána á þjóðhátíðardaginn okkar, hættum þessu bara,“ segir Helena Óladóttir umhverfisfræðingur um gasblöðrunotkun á 17. júní.

Helena er í forsvari fyrir Kvennasiglingu, sem er hópur kvenna sem kalla sig Seiglurnar.

„Við erum nokkrar konur sem höfum áhuga á að sigla og viljum auka þátt kvenna í siglingum og sömuleiðis að vekja athygli á umhverfismálum hafsins,“ segir Helena í samtali við mbl.is.

Fundu heila Barbie blöðru lengst frá landi

Á heimferð á leið þeirra í kringum landið í fyrra fundu þær 17. júní-gasblöðru 18 dögum eftir þjóðhátíðina.

„Þetta var rosalega áhrifamikið að veiða þessa blöðru úr hafinu, bæði því þetta var Barbie-blaðra og við erum konur sem erum að reyna að taka pláss í karllægu umhverfi en líka svo táknrænt að nánast óskemmd blaðra skuli hafa komið fljótandi svona langt frá landi,“ segir hún en Seiglurnar voru á beinni leið frá Vestmannaeyjum að Reykjanestá.

 „Barbie er náttúrulega svakalega úreld kvenímynd. Ég á blöðruna ennþá, ég hef ekki getað hent henni. Þetta er svo táknrænt fyrir okkur,“ segir Helena.

„Allar þær blöðrur sem maður missir á 17. júní enda í sjónum og tölur benda til þess að 80% af plasti í sjónum komi af landi. Þetta brotnar ekkert niður heldur verður að minni og minni ögnum þangað til þetta verður að örplasti,“ bætir hún við.

„Svo er það hitt, helíum er svakalega verðmæt lofttegund sem er til í mjög takmörkuðu magni og að við skulum leyfa okkur að puðra henni svona út í loftið er ótrúlega skrýtið.“

Getum alveg tekið þetta skref

Finnst þér að banna ætti blöðrur?

„Gasblöðrur já. Því það eru þær sem sleppa og fjúka mjög langt og svo vegna helíumsins. Þær eru mjög mengandi í hafi,“ segir Helena. 

„Einu sinni slepptum við þúsundum blaðra fylltum gasi á íþróttaleikvöngum og á stórum hátíðum en það er núna búið. Við erum alltaf að læra. Tökum eitt skref í einu, ég held við getum alveg tekið þetta skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert