Vilja fjölga konum í siglingum

Undirbúningur hefur gengið vel hjá hópnum.
Undirbúningur hefur gengið vel hjá hópnum. Raymond Hoffman

Stór hópur kvenna, sem kalla sig Seiglurnar, stefnir nú að því að hefja siglingu á seglskútu umhverfis Ísland hinn 13. júní. Markmið siglingarinnar er tvíþætt; annars vegar að fjölga konum í siglingum og hins vegar að vekja athygli á mikilvægi heilbrigðis hafsins. 35 konur standa á bak við verkefnið.

„Þessar 29 konur sem taka þátt í siglingunni með okkur eru alveg ofsalega öflugar á þessum sviðum, sumar eru mjög reyndar siglingakonur og aðrar eru með frábærann bakgrunn hvað varðar loftslags- og umhverfismál, þannig að saman erum við að leiða flottan hóp kvenna sem ég held að geti gert góða hluti í áttina að þessum markmiðum,“ sagði Helena W. Óladóttir, leiðangursstjóri hópsins, í samtali við blaðamann mbl.is.

Seiglurnar í undirbúningi.
Seiglurnar í undirbúningi. Raymond Hoffman

Þá segir hún að undirbúningur siglingarinnar hafi gengið rosalega vel og mikil spenna sé komin í allan hópinn á lokametrunum. „Það er í mörg horn að líta í svona undirbúningi, hvort sem það er markaðssetning, að sauma segl, panta olíu eða greiða hafnargjöld en þetta gengur allt vel hjá okkur,“ sagði Helena.

Konur þurfi að taka sér meira pláss

„Við fengum mikið af umsóknum og það var afar erfitt að velja,“ sagði Helena er hún sagði frá því að hópurinn hefði auglýst laus pláss í verkefnið. „Það segir okkur að konur hafa áhuga á því að sigla og á því að láta sig málefni hafsins varða.“ Þetta er í fyrsta sinn sem áhöfn á skútu er eingöngu skipuð konum og segir Helena það hafa vakið mikla athygli víðsvegar um landið.

Raymond Hoffman

„Konur eru ekki að taka sér stórt pláss í þessum heimi sem er úti á sjó,“ sagði Helena. „Auðvitað eru konur þar en þær eru bara ekki nándar nærri jafn margar og karlmennirnir, sem litar auðvitað umræðuna um öll málefni er varða hafið, nýtingu auðlinda, verndun hafsins og þær breytingar sem eru að verða á hafinu. Miklu stærri hluti karlmanna tekur þátt í þeirri umræðu og lætur sig málefnin varða, þannig að við erum að reyna að taka okkur pláss.“

Þá segir Sigríður Ólafsdóttir, skipstjóri og kennari í skipstjórn í Tækniskólanum, að aðeins örfáir þeirra sem sækist eftir menntun í skip- og vélstjórnun séu konur. „Verkefnið hvetur þær konur sem hafa áhuga á slíkri menntun að þetta sé möguleiki,“ sagði hún.

Siglingaáæltun hópsins.
Siglingaáæltun hópsins.

Mikil eftirvænting

Siglingaáætlun Seiglanna gerir ráð fyrir rúmlega þremur vikum. Þá segir Helena áhöfnina orðna mjög samheldna og það sé mikið hlegið og eftirvæntingin í hámarki.

Hún segir einnig að það sé mikil jákvæðni og mikill áhugi hjá þeim sem þær hafa leitað til vegna samstarfs. Þá munu þær stoppa á nokkrum stöðum víðsvegar um landið á siglingaleið sinni og halda fjölda viðburða. Málþing á Ísafirði varðandi málefni hafsins er einn af þeim viðburðum, málþing á Djúpavogi og samræður með Siglingaklúbbnum á Akureyri eru einnig meðal viðburða.

Raymond Hoffman

Hinn 12. júní verða Seiglurnar við hafnarbakka á lokastigi undirbúnings og þær leggja svo af stað í ferðina 13. júní. Siglingaklúbbarnir í Reykjavík koma til með að fylgja þeim úr hlaði á fleiri skútum. Hægt verður að fylgjast með þeim á facebooksíðu hópsins og einnig á vefsíðunni þeirra.

Raymond Hoffman
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert