c

Pistlar:

16. apríl 2024 kl. 18:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing á tímum stöðugleikastjórnar

Ný ríkisstjórn er mynduð um þá viðleitni að varðveita stöðugleika í landi sem er eins og önnur lítil hagkerfi ekki þekkt fyrir mikið efnahagslegt jafnvægi. Því gat það verið skynsamlegt að tryggja í það minnsta pólitískan stöðugleika þó því geti stundum fylgt stöðnun á öðrum sviðum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fékk í heimamund árið 2017 góða stöðu ríkissjóðs og munaði þar mestu um einstakan árangur vegna afnáms gjaldeyrishaftanna og framkvæmd stöðugleikaskilyrðanna sem voru forsenda afnámsins. Skilyrðin skiluðu á milli 800 og 1000 milljörðum króna í ríkissjóð og gerbreyttu fjárhagsstöðu landsins. Nú er hins vegar ríkissjóður rekinn með halla og nýr fjármálaráðherra segir að það taki fjögur ár að vinna á hallanum. Er það til viðbótar fimm ára hallarekstri. Er það langur eða stuttur tími fyrir hagþróun landsins? Það er auðvitað erfitt að segja en veltur talsvert á framkvæmdinni.

Hagstofa Íslands hefur nú gefið út þjóðhagsspá sem tekur til áranna 2024 til 2029. Þar kemur fram að hægt hefur á efnahagsumsvifum að undanförnu. Hagvöxtur reyndist vera 4,1% á síðasta ári og er útlit fyrir að verg landsframleiðsla aukist aðeins um 1,5% í ár. Reiknað er með að hagvöxtur verði helst drifinn áfram af einkaneyslu, utanríkisviðskiptum og samneyslu. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér aftur árið 2025 og verði 3,0% þegar innlend eftirspurn styrkist.alt2

Eymdarvísitalan

Ef ný ríkisstjórn er mynduð utan um pólitískan stöðugleika, hvað verður þá sagt um þann efnahagslega. Lítum á lykiltölur. Skráð atvinnuleysi í mars var 3,8% og ársverðbólgan mælist nú vera 6,8%. Íslenska eymd­ar­vísi­tal­an (e. misery index) mæl­ist nú vera 10,6 en hún byggist á samlagningu þessara tveggja stærða. Þessi tala er ekki ósvipuð því sem hefur verið í Bandaríkjunum í stjórnartíð Joe Bidens. Verst leika háir stýrivextir landsmenn en stundum þarf að minna á að án þeirra gæti verðbólgan verið miklu hærri eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði í ræðu sinni á aðalfundi bankans fyrir stuttu. Verðbólgan er eyðileggjandi afl og margt til vinnandi að vinna bug á henni. Hagstofan gerir ráð fyrir að verðbólga hjaðni á árinu og verði ríflega 5%.

Land skortsins

En þó að ýmsir hagvísar séu ekki mjög óhagstæðir þá er ekki hægt að horfa framhjá því að á Íslandi er að byggjast upp skortur á vörum sem skipta verulegu máli fyrir hagvöxt framtíðarinnar. Því má segja að núna séum við að spilla framtíðarhagvexti landsmanna sem mun þá koma niður á lífskjörum næstu ár og áratugi. Þar munar mestu um orkuskort sem þegar er farinn að segja til sín og hefur verið fjallað um hér í pistlum. Það er heimatilbúin vandi sem kemur til vegna ólíkrar sýnar á hvernig virkja skal í landinu. Þeir sem ekki vilja virkja vilja sjálfsagt ekki taka á sig afleiðingar þeirrar stefnu. Nú þegar er hagkerfið farið að missa af mörgum milljörðum króna á ári í tekjur vegna þessarar stefnu og þess skammt að bíða að tapið mælist í tugum milljarða.

Annar markaður þar sem lögmál skortsins hafa verið innleidd er húsnæðismarkaðurinn, þá sérstaklega á langstærsta íbúðamarkaðinum, nefnilega höfuðborgarsvæðinu. Nú er talað um að fermetraverð lóðar sé orðið um 200.000 krónur eða fjórðungur til fimmtungur af verði íbúðarhúsnæðis. Með því að tryggja ekki eðlilegt framboð lóða til að halda markaðnum hæfilega mettum hefur húsnæðisliðurinn mest áhrif á hækkun verðbólgu eins og ný skýrsla Húsnæðis og mannvirkjastofnunar sýnir. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar verður aðeins 688 íbúðum lokið á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári.byggingar

Það getur verið fróðlegt að bera saman íbúðamarkaðinn og markað fyrir hótelherbergi. Ljóst er að engin kemur hingað ef hann fær ekki gistingu en uppbygging hótela hefur verið hröð og mikil undanfarin áratug. Þar hefur einkaaðilum tekist að mæta þörfum hratt vaxandi markaðar og stutt þannig við hagvöxt. Ekki verður séð annað en að þar verði áframhaldandi uppbygging og mörg stór og smá hótelverkefni í pípunum.

Traust eiginfjárstaða

Heimili, fyrirtæki og ríkissjóður búa við nokkuð trausta eiginfjárstöðu og þrátt fyrir halla ríkissjóðs hefur lánshæfismat ríkisins og fyrirtækja þess verið að batna. Hagstofan bendir á að skuldastaða heimila sé efnahagslega traust og hefur hlutfall skulda heimila af vergri landsframleiðslu ekki verið lægra síðan 2018. Heimili eru aftur farin í auknum mæli að sækja í verðtryggð lán sem eru nú um 44% af heildarlánum heimila. Eigið fé heimila hefur ekki mælst hærra sem hlutfall af landsframleiðslu frá því söfnun talnaefnis hófst. Hrein erlend eignastaða þjóðarbúsins í lok síðasta árs nam tæplega 38% af vergri landsframleiðslu og hefur þjóðarbúið ekki staðið betur frá árslokum 2021 segir í spá Hagstofunnar þó óvissuþættir séu allnokkrir.

Ríkið á yfir 40 fyr­ir­tæki sem eru með bók­fært eigið fé yfir 1.000 millj­örðum. Markaðsvirði eignanna er margfalt meira. Ekki er langt síðan fjallað var um umsvif ríkisins á fyrirtækjamarkaði hér. Einnig á ríkið 900 fast­eign­ir og um 400 jarðir. Bók­fært virði þeirra eigna er um 312 millj­arða króna. Ríkið hefur því talsvert svigrúm til að takast á við hallarekstur næstu árin.