Leita að fólki á heimagistingarvakt

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að starfsfólki til að fylgjast …
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að starfsfólki til að fylgjast með heimagistingu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur auglýst störf á heimagistingarvakt laus til umsókna, en um er að ræða átaksverkefni til eins árs þar sem gæta á þess að farið sé eftir lögum og reglum í tengslum við heimagistingu.

Í byrjun maí kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að hún vildi herða eftirlit með Airbnb og annarri slíkri starfsemi hér á landi. Síðar í sama mánuði sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að hann hefði áhyggjur af því að eftirlit sýslumannsembættisins með heimagistingu væri ekki nægjanlegt.

Um miðjan síðasta mánuð samþykkt ríkisstjórnin svo tillögu Þórdísar um að veita 64 milljónum í átaksverkefni til að efla eftirlit með heimagistingu. Kom fram í tilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins að átaksverkefnið myndi stórefla heimagistingarvakt sýslumannsins. Væri farið í átakið til að tryggja rétt skattskil einstaklinga og lögaðila sem stundi þessa starfsemi. Gert var ráð fyrir að sektargreiðslur og aukin skattskil muni bæta upp kostnaðinn að fullu.

Í auglýsingum embættisins sem komu inn á vef Alfreðs nú fyrir stuttu, er auglýst eftir lögfræðingi, sérfæðingi og almennum starfsmönnum í þetta verkefni.

Fram kemur að lögfræðingur þurfi að sinna stjórnsýslumeðferð erinda til sýslumanns og að geta annast afgreiðslu mála í formi sektargerða, úrskurða, afturkallana og synjana og annast málsmeðferð og meðferð kærumála. Sérfræðingurinn mun sinna bakvinnsluverkefnum, skráningu og öflun rafrænna sönnunargagna auk móttöku og flokkunar ábendinga.

Starfsmenn á heimagistingarvaktinni munu sinna vettvangsrannsóknum og frumkvæðiseftiriliti með skráðum og skráningarskyldum aðilum. Þá munu þeir rannsaka ábendingar og kvartanir sem berast vegna heimagistingar.

Í samtali við mbl.is eftir að tilkynnt var um átakið sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að aðeins væri einn af hverjum sex sem stundaði sölu á heimagistingu með skráningu. Þá hefur einnig komið fram í greiningu Íbúðalánasjóðs að meirihluti sé ekki með skráningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK