Ein stærsta fyrsta stigs fjármögnunin

Gauti Reynisson, forstjóri Mint Solutions.
Gauti Reynisson, forstjóri Mint Solutions.

Eitt af skilyrðum fyrir 700 milljóna fjármögnun á Mint Solutions var að fyrirtækið færði höfuðstöðvar sínar úr landi, en hræðsla fjárfesta við fjármagnshöftin spilar þar stærsta hlutverkið. Þetta segir Gauti Reynisson, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is, en í dag var tilkynnt um áfangann. Um er að ræða fyrstu fjármögnun á eftir stofnun og frumfjárfestingu þá, svokallaða fyrsta stigs fjármögnun (e. series A funding). Til samanburðar safnaði Plain Vanilla 2,4 milljón dala í svipaðri fjármögnun.

Í leit að fleira starfsfólki

Í dag vinna 10 manns hjá fyrirtækinu og Gauti segir að þó að höfuðstöðvarnar verði fluttar til Hollands verði þróunarvinna áfram á Íslandi og nýlega hafi meira að segja verið fjölgað í starfsmannahópnum hér á landi. Þá segir hann að fyrirtækið leiti að tæknimenntuðu fólki núna í kjölfar fjármögnunarinnar.

Þurfa að flytja höfuðstöðvarnar út

Eins og fyrr segir var eitt að skilyrðunum fyrir því að klára fjármögnunina að fyrirtækið færi út með höfuðstöðvarnar. Gauti segir að þetta atriði ekki hafa verið umsemjanlegt þar sem áhættufjárfestar telji fjárfestingar almennt nógu áhættusamar, þannig að ekki sé bætandi á áhættu vegna fjármagnshafta.

Það er því ljóst að höftin eru alltaf að verða stærra og stærra vandamál fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi sem sjá sér ekki fært að vera skráð hér áfram eftir frumuppbyggingu, ætli þau sér að sækja fjármagn til frekari uppbyggingar.

Fullur kraftur í sölu- og markaðsstarf

Fyrirtækið hefur þegar tekið búnaðinn í notkun á einu sjúkrahúsi í Hollandi, en Gauti segir að einnig séu fimm önnur verkefni komin vel á leið og að hann geri ráð fyrir að þau klárist fyrir lok þessa árs. Þar sé bæði um að ræða sjúkrahús í Hollandi og Bretlandi.

Með þessu aukna fjármagni segir hann að það verði settur fullur kraftur í sölu- og markaðsstarf í Evrópu. Það verði því einnig einhverjir starfsmenn erlendis í slíkum störfum.

Ætluðu að gefa Landspítalanum kerfið til prófunar

Gauti segist ekki vilja setja fram einhver markmið í sölu á þessum tímapunkti, en að helsta markmiðið sé að auka notagildið og finna fleiri leiðir til að hjálpa sjúkrahússtarfsfólki til að hafa nánari upplýsingar um lyfjagjafir og þannig auðvelda því vinnuna.

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að kerfið verði notað hér á landi segir Gauti að Landspítalanum hafi verið boðið kerfið ókeypis til prófunar á sínum tíma, en að þá hafi spítalinn ekki haft tíma í að fara í innleiðingarferlið.

Ein stærsta fjármögnunin á Íslandi

Stofnendur fyrirtækisins eru þau Ívar Helgason, Gauti og María Rúnarsdóttir, en að frumfjárfestingunni komu auk þeirra Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, fjárfestirinn Guðmundur Jónsson og fjárfestingasjóðurinn Investa, en á bakvið hann eru nokkrir einstaklingar sem stóðu að OZ á sínum tíma. Þá lagði Tækniþró­un­ar­sjóður fé­lag­inu til styrki í upp­bygg­ing­ar­ferl­inu.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA, segir í samtali við mbl.is að þetta sé að hennar viti stærsta fjárfesting á fyrsta stigi sem hún muni eftir, allavega af þeim 150 sem NSA hefur komið að. Segir hún að það þurfi að leita aftur til OZ fyrir aldamót til að finna viðlíka upphæðir. Þá segir hún að sérstaklega sé gaman að sjá áhuga erlendra fjárfesta sem staðfesti hversu áhugavert verkefnið sé. 

Frétt mbl.is: Fjárfest í Mint fyrir 700 milljónir

Leiðrétting kl. 16:44: Í fréttinni var upphaflega sagt að þetta væri stærsta fyrsta stigs fjárfesting hér á landi. Fjárfesting deCODE var aftur á móti töluvert stærri, eða sem nemur 18 milljón dölum. Engu að síður er um að ræða eina stærstu fjármögnun á fyrsta stigi hérlends fyrirtækis.

Mint Solutions mun flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.
Mint Solutions mun flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Mynd/Mint Solutions
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK