Njarðvík burstaði Val á Hlíðarenda

Mario Matasovic var mikilvægur fyrir Njarðvík í kvöld.
Mario Matasovic var mikilvægur fyrir Njarðvík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkingar tóku forystuna gegn Valsmönnum í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með stórsigri á Hlíðarenda í kvöld 84:105. Staðan er 1:0 fyrir Njarðvík en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitarimmuna.

Njarðvík tók snemma forystuna í kvöld en liðið var tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 28:18. Í öðrum leikhluta náði Njarðvík fjórtán stiga forskoti sem Valur minnkaði niður í sjö stig. En Njarðvík skoraði síðustu sjö stigin í fyrri hálfleik og voru yfir 54:40 fyrir síðari hálfleikinn. Þessi lokakafli lagði ef til vill grunninn að sigrinum því Valur náði aldrei að gera almennilega spennu úr þessu í síðari hálfleik.

Í síðari hálfleik jókst munurinn smám saman og spennan var fokin út í veður og vind þegar síðasti leikhlutinn hófst. Þá var staðan orðin 82:60 fyrir Njarðvík.

Þriðji sigurinn í röð

Njarðvíkingar eru með byr í seglum og hafa nú unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa verið 1:2 undir í 8-liða úrslitunum gegn Þór frá Þorlákshöfn. Sigurinn gegn Þór í oddaleiknum á dögunum var lygilegur og virðist hafa skapað góða stemningu í Njarðvíkurliðinu. Leikmenn liðsins virtust hafa gaman að því sem þeir voru að gera á vellinum í kvöld en heldur þyngra var yfir Valsmönnum og önnur líkamstjáning.

Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur hjá Njarðvík með 24 stig. Það er athyglisvert að maður tók ekki sérstaklega eftir því að hann ætti neinn stórleik. Milka var mjög drjúgur í fyrri hálfleik og skoraði 18 stig þegar uppi var staðið en tók auk þess 13 fráköst. Mario Matasovic var heitur í kvöld og setti niður fjóra þrista í sjö tilraunum. Þar af einn á lokasekúndum fyrri hálfleiks og annan á lokasekúndum þriðja leikhluta.

Kristófer Acox skoraði 19 stig fyrir Val og tók 9 fráköst. Hann tróð þrisvar í leiknum og reyndi framan af leik að búa til stemningu en það breyttist í pirring þegar leið á leikinn. Taiwo Badmus átti góðar rispur og skoraði 17 stig,  Kristinn Pálsson og Frank Aron Booker voru með 14 stig.

Valur hafði betur gegn Hetti í átta liða úrslitunum 3:1 á meðan Njarðvík vann Þór frá Þorlákshöfn 3:2. 

Lið Vals: Antonio Monteiro, Hjálmar Stefánsson, Ástþór Atli Svalason, Taiwo Badmus, Benedikt Blöndal, Frank Aron Booker, Kristófer Acox, Kristinn Pálsson, Þorgrímur Starri Halldórsson, Brynjar Grétarsson, Sófur Máni Bender, Justas Tamulis. 

Lið Njarðvíkur: Dwayne Lautier-Ogunleye, Þorvaldur Árnason, Chaz Williams, Veigar Páll Alexandersson, Elías Pálsson, Snjólfur Stefánsson, Sigurbergur Isaksson, Mikael Möller, Sigurður Magnússon, Maciej Baginski, Mario Matasovic, Dominkas Mika. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 84:105 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert