Hann er enginn aumingi

Valsarinn Hjálmar Stefánsson fylgist með Taiwo Badmus í baráttunni.
Valsarinn Hjálmar Stefánsson fylgist með Taiwo Badmus í baráttunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsarinn Hjálmar Stefánsson var að vonum sáttur með sigur sinna manna á Hetti, 94:74, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum úrvalsdeildarinnar í körfubolta í Valsheimilinu í kvöld.

Valur er kominn í 2:1 með sigrinum en liðin mætast næst á Egilsstöðum á mánudaginn kemur.

„Þetta var fínt. Það er erfitt verkefni framundan þegar við förum aftur austur. Við erum komnir með aðeins skýrari mynd af því sem við viljum gera. Nú er að hamra á litlu atriðunum og halda áfram. 

Höttur er með hörkugott lið og var þetta alltaf að fara vera leikur í 40 mínútur. Við töluðum um það inn í klefa að leikurinn myndi ekkert klárast í fyrsta, öðrum eða þriðja leikhluta,“ sagði Hjálmar um leikinn. 

Hendir sér ekki niður

Hattarmaðurinn David Guardia var rekinn út úr húsi á 14. mínútu eftir að hafa sparkað í Valsarann Frank Aron Booker. Hjálmar segist ekki hafa séð atvikið.  

„Ég sá það ekki, var á bekknum. En þekkjandi Booker er hann ekkert að henda sér niður. Hann er enginn aumingi. Þetta er úrslitakeppni þannig hrós á þá og alla. Þetta verður hörkubarátta.“

Hvað þurfið þið að gera til að tryggja ykkur áfram á mánudaginn kemur?

„Spila saman sem lið og góða vörn,“ bætti Hjálmar við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert