Mér líður ógeðslega vel

Inga Dís Jóhannsdóttir skýtur að marki Fram.
Inga Dís Jóhannsdóttir skýtur að marki Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ógeðslega vel, þetta var geggjað,“ sagði Inga Dís Jóhannsdóttir leikmaður Hauka kampakát við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar tryggðu sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta með sigri á Fram, 27:23, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum. Haukar unnu einvígið 3:0.

„Mér leið rosalega vel allan leikinn og mér kveikt á liðinu allan tímann. Okkur langaði ótrúlega mikið að vinna þetta og við gáfum allt í þetta,“ bætti hún við.

Haukar unnu tvo fyrstu leiki einvígisins eftir mikla spennu og framlengingu en í dag var liðið yfir nánast allan tímann og vann að lokum nokkuð sannfærandi sigur.

„Mér fannst við vera tilbúnari frá byrjun. Við vorum allan tímann að berjast og við hlupum betur til baka. Ég var ákveðin í að vinna þennan leik og það kom ekkert annað til greina en að keyra.

Inga skoraði öll fjögur mörkin sín í seinni hálfleik og átti sinn þátt í að Haukaliðið var með völdin á lokakaflanum. Ég keyrði meira á í seinni hálfleik. Ég þorði meira að fara í ógnanirnar og þá gat ég keyrt í gegn,“ útskýrði hún.

Það var vel mætt í Úlfarsárdal í dag og mikil læti í stúkunni. „Þetta er búið að vera geggjað. Liðið, stuðningsmennirnir og allt. Þetta er búið að vera ógeðslega gaman og góð orka allan tímann. Við erum búnar að vera ákveðnar í að vinna þetta allan tímann.“

Haukar mæta gríðarlega sterku Valsliði í úrslitum en Valur er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari og á 21. leikja sigurgöngu.

„Við mætum brjálaðar í þá leiki líka. Við eigum möguleika á móti þessu Valsliði, 100 prósent. Við ætlum að halda áfram að berjast og nota þessa liðsheild. Þá getum við tekið þær. Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í úrslitakeppninni og þetta er búið að vera geggjað,“ sagði Inga Dís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert