Í leikbann fyrir bendingu gegn valdaráninu

Hein Htet Aung, sem spilar fyrir annarrar deildar liðið Selangor …
Hein Htet Aung, sem spilar fyrir annarrar deildar liðið Selangor FC II, notaði merkið í leik gegn PDRM FC snemma í mars. AFP

Knattspyrnumaður frá Mjanmar sem leikur í malasísku deildinni hefur verið dæmdur í leikbann fyrir þriggja fingra hyllingu, sem mótmælendur valdaránsins í heimalandi hans nota gjarnan, meðan á kappleik stóð.

Hein Htet Aung, sem spilar fyrir annarrar deildar liðið Selangor FC II, notaði merkið í leik gegn PDRM FC snemma í mars og hefur ljósmynd af atvikinu farið víða á netinu.

Malasíska knattspyrnusambandið segir Aung hafa gerst sekan um að brjóta reglur sem kveða á um bann við móðgandi merkjum og orðalagi, og kalla hegðun hans óíþróttamannslega.

Aung missti af leik liðs síns gegn Perak FC II síðastliðinn föstudag, og á yfir höfði sér enn þyngra bann gerist hann sekur um sama háttalag öðru sinni, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

„Fótbolti verður að vera ofar kynþætti, trú og stjórnmálum. Fótbolta á að nota til að sameina en ekki sundra fólki,“ er haft eftir Baljit Singh Sidhu, formanni aganefndar malasíska knattspyrnusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert