Skoraði tuttugasta markið á tímabilinu

Diljá Ýr Zomers hefur skorað grimmt fyrir Leuven í Belgíu …
Diljá Ýr Zomers hefur skorað grimmt fyrir Leuven í Belgíu í vetur. Ljósmynd/Alex Nicodim

Diljá Ýr Zomers, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði enn einu sinni fyrir OH Leuven þegar lið hennar gerði jafntefli, 3:3, við Club Brugge á útivelli í belgísku A-deildinni í gær.

Diljá er markahæsti leikmaður deildarinnar en var þó á varamannabekknum til að byrja með. Hún kom inn á í hálfleik þegar Leuven var 2:0 undir og skoraði mark, 2:1, eftir aðeins sex mínútur. Hennar tuttugasta mark fyrir Leuven í deildinni í vetur.

Leuven komst yfir, 3:2, en Club Brugge jafnaði að lokum.

Baráttan um belgíska meistaratitilinn er gríðarlega hörð milli þriggja liða en Anderlecht og Leuven eru með 35 stig hvort og Standard Liege 33 þegar fjórum umferðum er ólokið. Anderlecht og Standard gerðu markalaust jafntefli í gær þannig að staða liðanna breyttist ekkert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert