„Draumurinn um þrennuna orðinn raunverulegri“

Sara Björk fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Sara Björk fagnar ásamt liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Wolfsburg

„Það var mjög þægilegt að ná fram sigri í deildinni á þessum tíma,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Wolfsburg tryggði sér í fyrradag þýska meistaratitilinn eftir 2:0 sigur á Essen í 1. deild kvenna þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni en framundan hjá Söru Björk eru tveir mikilvægir úrslitaleikir.

„Núna getum við einbeitt okkur að úrslitaleikjunum sem eru framundan. Við eigum leik við Bayern München í úrslitum þýska bikarsins á laugardaginn og svo mætum við Lyon í úrslitum Meistaradeildarinnar 24. maí þannig að það var fínt að tryggja sér sigur í deildinni í fyrradag.“

Wolfsburg hefur nánast verið óstöðvandi í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð og hefur liðið einungis tapað einum leik í deildarkeppninni.

„Ef ég á að vera hreinskilin þá finnst mér við hafa haft mikla yfirburði í deildinni á þessu tímabili. Í fyrra var deildin jafnari, en í ár náðum við mjög vel saman sem lið og við höfum verið í miklum ham. Við erum með frábæra einstaklinga í okkar liði og liðsheildin er orðin betri og það hefur í raun ekkert lið náð að stoppa okkur.“

Sara hefur verið einn besti maður Wolfsburg á tímabilinu og er hún komin með 12 mörk á tímabilinu í öllum keppnum.

„Þetta hefur verið betra hjá mér persónulega en í fyrra. Ég kem hingað á síðasta ári og næ að vinna mig strax inn í liðið en fyrsta tímabilið er alltaf aðeins öðruvísi. Það tekur tíma að koma sér inn í nýtt lið og nýja deild, þetta er allt öðruvísi en í Svíþjóð. Á þessu ári hef ég náð að blómstra meira og mér hefur tekist betur að sýna mína helstu styrkleika.“

Sjá allt viðtalið við Söru í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert