„Draumur að veruleika“

Sara Björk fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Sara Björk fagnar ásamt liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir verður fyrsta íslenska knattspyrnukonan til að leika úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en lið hennar, Wolfsburg, sló út Chelsea í undanúrslitunum í gær.

Wolfsburg er sömuleiðis á toppi þýsku 1. deildarinnar ásamt því að vera komið í úrslit bikarkeppninnar og því nóg framundan hjá Söru sem bíður með tilhlökkun komandi verkefna.

„Þetta er draumur að verða að veruleika, að spila úrslitaleik í Meistaradeildinni,“ sagði Sara í viðtali við Morgunblaðið eftir leikinn gegn Chelsea í gær, sem liðið vann 2:0 og undanúrslitaeinvígið þar með 5:1. Wolfsburg mætir ríkjandi Evrópumeisturum Lyon í Kiev í úrslitaleiknum 24. maí næstkomandi en franska liðið sló einmitt út Söru og félaga í 8-liða úrslitunum í fyrra.

„Þetta er eitthvað sem ég hef ætlað mér í ótrúlega mörg ár og loksins er komið að þessu. Það er gríðarlega mikill heiður að fá að spila þennan leik, maður hefur lagt svo ótrúlega hart að sér og nú er ég að uppskera eftir því, það er ótrúlega sætt.

Lyon er með gríðarlega sterkt lið en ég held að okkar hópur sé sá besti, við förum í þennan leik fullar af sjálfstrausti og ætlum okkur að vinna ekki bara hann heldur allt, við viljum þrennuna.“

Sara Björk er aðeins annar Íslendingurinn til að komast með sínu liði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en Eiður Smári Guðjohnsen gerði það með Barcelona árið 2009. „Það er ágætis félagsskapur,“ sagði Sara sem gæti þó orðið fyrst allra til að spila úrslitaleikinn sjálfan en Eiður var ónotaður varamaður á sínum tíma.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert