Norðurlöndin einhuga með Infantino

Gianni Infantino er framkvæmdastjóri UEFA og sækist eftir kjöri í …
Gianni Infantino er framkvæmdastjóri UEFA og sækist eftir kjöri í embætti forseta FIFA. AFP

Norðurlandaþjóðirnar sex munu allar kjósa Svisslendinginn Gianni Infantino í kjörinu á forseta FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, í Zürich á föstudaginn. Þetta staðfesti danska knattspyrnusambandið á vef sínum í dag en áður hefur komið fram að KSÍ muni greiða Infantino atkvæði sitt.

„Norðurlandaþjóðirnar eiga mörg sameiginleg gildi og stefnumál í þróun knattspyrnunar, hvað varðar endurskipulag, gegnsæi og lýðræði, og meðal annars framþróun í kvennaknattspyrnu á heimsvísu. Það er því gott að við getum látið til okkar heyra sem ein rödd, þegar við komum saman með öðrum aðildarþjóðum FIFA, og þegar við greiðum atkvæði okkar á föstudaginn," segir í yfirlýsingunni á dbu.dk.

Infantino, sem er framkvæmdastjóri UEFA, er einn fimm frambjóðenda í kjörinu. Talið er að baráttan um forsetaembættið muni standa á milli hans og Salman bin Ebrahim al-Khalifa frá Barein, sem er forseti asíska knattspyrnusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert