ÞEIR höfðu um margt að spjalla, leikmenn KR eftir létta …
ÞEIR höfðu um margt að spjalla, leikmenn KR eftir létta æfingu í Frostaskjólinu í gær. Morgunblaðið/Arnaldur  Lagt á ráðin

Atli Eðvaldsson þjálfaði lið Eyjamanna fyrir fáum árum, en stýrir nú KR-ingum gegn þeim í stórleik dagsins í Frostaskjólinu. Björn Ingi Hrafnsson ræddi við þjálfarann, sem telur að um draumaleik fyrir íslenska knattspyrnu sé að ræða.
ATLI var við stjórnvölinn í Eyjum 1995 og 1996 og nokkrir leikmanna liðsins þá munu mæta sínum gamla þjálfara í dag. "Þetta verður skemmtilegt og mér finnst gaman að hafa komið að mótun svo sterkra liða," sagði þjálfarinn. "Ég veit hins vegar ekki hversu mjög það mun nýtast mér í leiknum, Ísland er ekki stórt land og viðbúið er að Eyjamenn séu búnir að rannsaka leik okkar ofan í kjölinn. Ég hef engu að síður kynnst þessum einstaka baráttuanda Eyjamanna af eigin raun og það er jákvætt."

Frábært sumar

 KR-liðið hefur verið á nokkurri siglingu eftir heldur rysjótt gengi framan af sumri, þar sem liðið gerði mikið af jafnteflum. "Það voru margir búnir að afskrifa okkur snemma sumars, sögðu að við gætum ekki skorað mörk og spiluðum leiðinlega knattspyrnu," segir Atli. "Við vorum hins vegar með lið í mótun, við misstum hvorki fleiri né færri en sjö landsliðsmenn frá síðustu leiktíð og að auki voru níu til tíu leikmenn ekkert með okkur á undirbúningstímabilinu. Andri Sigþórsson, Einar Þór Daníelsson, Kristján Finnbogason og Þorsteinn Jónsson léku erlendis í vetur og komu ekki til landsins fyrr en skömmu fyrir mót, Sigurður Örn Jónsson, Þormóður Egilsson og Bjarni Þorsteinsson áttu allir í meiðslum og þá kom David Winnie ekki til liðs við okkur fyrr en í fjórðu umferð. Það gefur því augaleið, að tíma hefur tekið að stilla þetta lið saman. Við höfum brugðið á það ráð að gefa ungu leikmönnunum okkar aukin tækifæri. Það hefur tekist með miklum ágætum, þessir leikmenn gefa allt sitt í leikinn þegar þeir fá tækifæri og hafa sýnt skemmtilega tilburði, m.a. þegar þeir skelltu Skagamönnum út úr bikarkeppninni. Þessir leikmenn eru burðarásinn í 1. flokki félagsins, sem varð Íslandsmeistari í sumar og sumir léku einnig í 2. flokki sem sömuleiðis vann til Íslandsmeistaratitilsins. Það er því óhætt að segja að um frábært sumar hafi verið að ræða hjá félaginu, gríðarlegt uppbyggingarstarf hefur verið að skila sér og ég er ekki frá því að afstaðan til félagsins hafi breyst nokkuð vegna þessa, fólk kann vel að meta þegar ungum og efnilegum afreksmönnum eru gefin tækifæri."

Leikum til sigurs

 Atli lék í nokkur ár með KR í efstu deildinni eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku í Tyrklandi. Hann var í liði Ians Ross, sem tapaði endurteknum og framlengdum bikarúrslitaleik gegn Val 1990 og missti sama ár af sjálfum Íslandsmeistaratitlinum á lakara markahlutfalli. "Þá vorum við geysilega svekktir, enda var afraksturinn enginn þrátt fyrir allt. Þá þurftum við að vinna lokaleikinn sjálfir og treysta svo á hægstæð úrslit úr leik Fram og Vals. Það gekk ekki eftir, eins og frægt er orðið, þótt við hefðum klárað okkar leik og eflaust hefðu margir viljað fá tækifæri til að leika hreinan úrslitaleik um titilinn. Það er því skemmtilegt að þannig hittist á í dag, nú geta KR-ingar unnið titilinn á heimavelli með því að sigra í lokaleiknum. Það verður hins vegar geysilega erfitt og að mörgu leyti hafa Eyjamenn nokkurt forskot þegar flautað er til leiks. Þeir eru jú núverandi Íslandsmeistarar og hafa titil að verja, þeir eru einnig bikarmeistarar og hafa fyrir leikinn tveggja stiga forskot í toppsæti deildarinnar. Þeim dugir þess vegna jafntefli og kannski má segja að í upphafi hafi þeir forskot, 0:1. Við höfum hins vegar allt að vinna, verðum að sækja til sigurs og vitaskuld stefnum við að sigri, rétt eins og í öllum heimaleikjum okkar. Við erum ekki vanir því að tapa á heimavelli og vonandi breytist það ekki í þessum leik, eins mikilvægur og hann er."

Sóknarleikur er afstætt hugtak

 Að undanförnu hefur mikið verið rætt um hugsanlegar stöður sem upp gætu komið í leiknum og hvað henti liðunum betur í þeim efnum. Þannig hefur því verið fleygt að KR sé með meira varnarlið en sóknarlið og því henti illa að þurfa að sækja sigur í leiknum. Eyjamenn eigi hins vegar sóknarliði á að skipa og geti því auðveldlega varist og beitt skyndisóknum.
 Atli segist ekki gefa mikið fyrir slíkt tal. "Þetta er alls ekki svona einfalt," segir hann. "Við höfum verið kallaðir varnarlið og að sóknarleikur okkar gangi ekki sem skyldi. Ég sé hins vegar ekki að það standist, við erum í þriðja sæti yfir markahæstu lið og höfum svo fengið langfæstu mörkin á okkur. Málið er að hugtakið sóknarleikur er mjög afstætt. Öll lið nýta sín tækifæri til sókna og þar erum við engin undantekning. Við reynum að nýta sóknartækifæri okkar til fullnustu en verjumst svo þess á milli. Það er ekki eins og ég hafi fundið upp þessa uppskrift, ég veit ekki betur en að Frakkar hafi unnið heimsmeistaratitil með sömu aðferðum. Allir leikmennirnir eru að skora mörkin, enginn einn markaskorari sér um þá hlið mála. Eins er með vörnina, allir hafa þar sínum skyldum að gegna og lykillinn er að þessir þættir vinni saman og myndi eina sterka heild. Ekkert lið vinnur án sterkrar varnar og ekkert lið vinnur án þess að skora mark eða mörk."

Ekki sama staða og fyrir tveimur árum

 Margir hafa orðið til þess að rifja upp úrslitaleik ÍA og KR fyrir tveimur árum og segja KR-inga vera í sömu sporum og Skagamenn voru þá, þ.e. að ekkert nema sigur komi til greina hjá þeim og Eyjamönnum dugi jafntefli til að fá titilinn, rétt eins og KR þá. Atli segist skilja samlíkinguna, en segir ekki hægt að líkja saman Skagaliðinu þá og KR nú. "Þetta Skagalið var búið að vinna Íslandsmeistaratitilinn nokkur ár í röð á undan og að auki bikarinn sama ár. Þarna voru því reynslumiklir menn, sem vissu nákvæmlega hvað þurfti til að ná árangri. Við erum hins vegar með lið í mótun, mínir leikmenn hafa mismikla reynslu að baki, sumir jafnvel mikla en aðrir litla sem enga. Það er á hinn bóginn rétt að í þessum leik gildir að baráttan snýst um allt eða ekkert. Tap eða jafntefli þýðir annað sætið og þótt það sé í sjálfu sér góður árangur, þá gleymist slíkt þegar efsta sætið er innan seilingar. Við eigum möguleika á því, ekki jafnmikla og Eyjamenn þegar blásið er til leiks, þar sem þeim dugir aðeins annað stigið, en þó nokkra."
 Liðin hafa mæst tvisvar í sumar í Vestmannaeyjum, fyrst í deildinni og svo í bikarnum. Eyjamenn hafa haft betur í bæði skiptin, í deildinni unnu þeir 3:0 og 1:0 í bikarnum, þar sem þó þurfti að grípa til framlengingar. Athyglisverð er í þessu samhengi, sú staðreynd að Eyjamenn hafa skorað þrjú af þeim sjö mörkum sem KR-ingar hafa fengið á sig í deildinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert