Sagan endurtók sig í Kóreu en nýtt met slegið

Skjáskot af opinberum Instagram-aðgangi LCK sem sýnir leikmenn Gen.G lyfta …
Skjáskot af opinberum Instagram-aðgangi LCK sem sýnir leikmenn Gen.G lyfta bikarnum eftir 3:1 sigur gegn T1 í League of Legends. Ljósmynd/Riot Games/LCK

Vortímabil kóresku deildarinnar í LCK-mótaröðinni þetta árið endaði á býsna áhugaverðan hátt. Liðið Gen.G vann glæstan 3:1 sigur gegn T1 í úrslitaleiknum sem spilaður var nýlega en áhorfendur deildarinnar hafa aldrei verið fleiri.

Úrslitaleikurinn skar ekki aðeins úr um sigurvegara tímabilsins heldur var áhorfsmet einnig slegið. Samkvæmt Esports Charts voru um ein og hálf milljón áhorfenda, eða rúmlega 1,46 milljón áhorfendur, sem fylgdust með á sama tíma.

Sömu lið og síðast

Óhætt er að segja að sagan hafi endurtekið sig frá því á síðasta ári þegar fyrra áhorfsmet var slegið, en það gerðist þegar sömu lið mættust og þá í úrslitaleik vortímabilsins, líkt og nú.

Áhorfendum hefur fjölgað um tæplega hundrað þúsund manns þar sem um 1,37 milljónir fylgdust með á sama tíma þegar fyrra metið var slegið.

Hundruði klukkustunda í beinni

LCK-mótaröðin er í hópi þeirra þriggja vinsælustu á árinu en frá því í janúar, þegar vortímabil LCK hófst, hefur verið sýnt frá um 300 klukkustundum af deildarleikjum í beinni útsendingu.

Eins má nefna að um 234.000 manns hafa að meðaltali fylgst með deildarleikjum á sama tíma, en það jafngildir um það bil þriðjung íslenskra ríkisborgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka