Stjórinn fékk tveggja leikja bann

Vincent Kompany er í erfiðri fallbaráttu með Burnley.
Vincent Kompany er í erfiðri fallbaráttu með Burnley. AFP/Glyn Kirk

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, er kominn í tveggja leikja bann í ensku úrvalsdeildinni.

Kompany fékk rauða spjaldið og var rekinn upp í stúku síðasta laugardag þegar lið hans tapaði 1:0 fyrir Everton í fallbaráttuleik liðanna á Goodison Park í Liverpool.

Hann verður því að sitja uppi í áhorfendastúku í næstu tveimur leikjum liðsins, sem eru heimaleikur gegn Brighton á laugardaginn kemur og útileikur gegn Sheffield United laugardaginn 20. apríl.

Þá var Kompany sektaður um tíu þúsund pund vegna brottrekstursins.

Burnley er í erfiðri stöðu í næstneðsta sæti deildarinnar, sex stigum frá því að komast úr fallsæti þegar sex umferðum er ólokið, og verður helst að vinna báða þessa leiki til að eiga raunhæfa möguleika á að bjarga sér frá falli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert