Salah skaut Liverpool á toppinn

Luis Díaz, Mohamed Salah og Conor Bradley fagna sigurmarki Salah.
Luis Díaz, Mohamed Salah og Conor Bradley fagna sigurmarki Salah. AFP/Paul Ellis

Liverpool hafði betur gegn Brighton & Hove Albion, 2:1, þegar liðin öttu kappi í 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Mohamed Salah reyndist hetja Liverpool.

Með sigrinum fór Liverpool á topp deildarinnar, þar sem liðið er nú með 67 stig. Brighton er áfram í níunda sæti með 42 stig.

Manchester City og Arsenal eigast við í dag og endurheimta Skytturnar toppsætið með sigri.

Brighton náði forystunni í fyrstu eiginlegu sókn leiksins þegar Danny Welbeck skoraði á annarri mínútu.

Boltinn barst þá til hans við vítateigslínuna eftir að Virgil van Dijk tókst einungis að hreinsa stutt frá. Welbeck þakkaði fyrir sig með laglegu þrumuskoti sem Caomhín Kelleher í marki Liverpool átti ekki möguleika á að verja.

Danny Welbeck fagnar marki sínu.
Danny Welbeck fagnar marki sínu. AFP/Paul Ellis

Kólumbíumaðurinn jafnaði metin

Liverpool vaknaði af værum blundi eftir markið og hóf að setja mikla pressu á Brighton. Salah fékk nokkur úrvals færi en skaut þrisvar sinnum framhjá og einu sinni í varnarmann.

Á 27. mínútu jafnaði Luis Díaz metin. Salah skallaði þá hornspyrnu sem hafði verið skölluð frá aftur inn fyrir vörn Brighton, boltinn fór af Joel Veltman og barst til Luis Díaz sem potaði boltanum í netið á lofti af stuttu færi áður en Verbruggen náði til hans.

Skömmu síðar slapp Salah einn í gegn eftir sendingu Dominiks Szoboszlais en skot Egyptans var laust og beint á Verbruggen.

Darwin Núnez átti þá lúmskt skot af örstuttu færi þar sem hann lá eftir skallaeinvígi en Verbruggen varði naumlega með fótunum.

Welbeck og Moder gerðu sig líklega hinu megin en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 1:1 í leikhléi.

Salah skildi á milli

Í síðari hálfleik var Liverpool áfram við stjórn.

Alexis Mac Allister átti til að mynda skalla úr miðjum vítateignum eftir fyrirgjöf Joe Gomez frá vinstri en hann fór naumlega framhjá markinu.

Á 64. mínútu minnti Núnez á sig þegar hann náði skoti í nærhornið vinstra megin úr teignum en Verbruggen varði.

Mínútu síðar náði Liverpool forystunni og var þannig búið að snúa taflinu við.

Þar var að verki Salah sem lagði boltann í netið af stuttu færi eftir laglega sendingu Mac Allister úr D-boganum í kjölfar góðrar sóknar.

Luis Díaz fagnar jöfnunarmarki sínu.
Luis Díaz fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP/Paul Ellis

Á 71. mínútu virtist Díaz vera að koma Liverpool í 3:1 þegar hann skoraði eftir góða stungusendingu Salah en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Gífurlega litlu munaði að Kólumbíumaðurinn hafi verið réttstæður þar sem um millimetraspursmál virtist vera að ræða.

Salah fékk kjörið færi til þess að skora þriðja mark Liverpool þegar stundarfjórðungur lifði leiks þegar hann slapp einn í gegn eftir skyndisókn en skot sóknarmannsins var laust og beint á Verbruggen.

Díaz gerði sig líklegan einu sinni til viðbótar áður en varamaðurinn Adam Lallana, fyrrverandi leikmaður Liverpool, slapp svo í gegn eftir mistök Kólumbíumannsins en skaut naumlega framhjá.

Salah fékk eitt dauðafæri til viðbótar á lokamínútunni en Verbruggen gerði vel í að sjá við honum eftir að skotið fór af varnarmanni.

Welbeck átti síðasta orðið fyrir Brighton á þriðju mínútu uppbótartíma en skot hans úr vítateignum hafnaði í hliðarnetinu.

Liverpool 2:1 Brighton opna loka
90. mín. Mohamed Salah (Liverpool) á skot sem er varið Dauðafæri! Boltinn berst til Salah í teignum, hann nær skotinu sem fer aðeins af varnarmanni og stefnir niður í hornið en Verbruggen gerir frábærlega í að verja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert