Toney greinir frá draumaliðinu

Thomas Frank og Ivan Toney á góðri stundu.
Thomas Frank og Ivan Toney á góðri stundu. AFP/Adrian Dennis

Enski knattspyrnumaðurinn Ivan Toney er líklega á förum frá enska félaginu Brentford í sumar en hann er á lista margra félaga í Evrópu.

Toney var á dögunum valinn í landsliðshóp enska landsliðsins fyrir komandi landsliðsverkefni í mars en hann hefur staðið sig með prýði eftir að hann kom til baka úr átta mánaða leikbanni sem hann hlaut fyrir brot á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Hann hefur skorað fjögur mörk í níu leikjum og er talið að Arsenal, Chelsea og Tottenham séu öll með nafn hans á lista fyrir félagaskiptagluggann í sumar.

Í viðtali við Sky Sports nefndi Toney þó spænska félagið Real Madrid þegar hann var spurður að því hvernig hann sæi draumasumar fyrir sér.

„Ef Brentford ætlar að selja mig þá græða þeir mikinn pening, ég flyt til Madrídar og allt verður í góðu. Ég er bara að hugsa um Brentford núna og að spila fyrir enska landsliðið.“ Allar líkur eru á því að Toney verði seldur í sumar þrátt fyrir vilja knattspyrnustjórans Thomas Frank að halda honum innan herbúða félagsins.

„Það myndi koma mér verulega á óvart ef við fáum engin tilboð í Toney í sumar“ sagði Thomas Frank, sem hlýtur að vona að Toney fari þó að skora fleiri mörk til þess að gulltryggja félaginu sæti í efstu deild á næsta tímabili en Brentford hefur tapað sjö af síðustu tíu leikjum í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert