Lygilegar lokamínútur í bikarkeppninni

Úr leik Coventry og Wolves í ensku bikarkeppninni í dag.
Úr leik Coventry og Wolves í ensku bikarkeppninni í dag. AFP

Ensku knattspyrnufélögin Wolves og Coventry mættust í dag í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar en síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi.

B-deildarlið Coventry vann leikinn 3:2 eftir að fjögur mörk voru skoruð á lokamínútum leiksins og sló því úrvalsdeildarliðið úr keppni.

Framherjinn Ellis Simms kom gestunum í Coventry yfir á 53. mínútu leiksins með skallamarki eftir hornspyrnu en gestirnir höfðu fengið mörg dauðafæri í leiknum og því var það nánast bara tímaspursmál hvenær boltinn myndi enda í netinu.

Allt stefndi í að Úlfarnir væru að detta úr bikarkeppninni þar til Rayan Ait-Nouri jafnaði metin fyrir Úlfana þegar sex mínútur voru til leiksloka. Einungis fjórum mínútum síðar skoraði Hugo Bueno svo fyrir Wolves og var nálægt því að tryggja Úlfunum sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar.

Ellis Simms neitaði þó að gefast upp og á sjöundu mínútu uppbótartímans skoraði hann sitt annað mark í leiknum og jafnaði metin á nýjan leik. Þremur mínútum síðar, á tíundu mínútu uppbótartímans skoraði svo Haji Wright og tryggði Coventry sæti í undanúrslitunum sem fram fara á Wembley-leikvanginum. 

Dregið verður í undanúrslitin eftir viðureign Manchester United og Liverpool sem fram fer á morgun klukkan 15.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert