Í hóp Úlfa og djöfla

Neto og Chris Mepham fagna ótrúlegum sigri Bournemouth í gærkvöldi.
Neto og Chris Mepham fagna ótrúlegum sigri Bournemouth í gærkvöldi. AFP/Adrian Dennis

Bournemouth vann í gærkvöldi ótrúlegan endurkomusigur á Luton Town, 4:3, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla.

Bournemouth var 0:3 undir í leikhléi en sneri taflinu við í síðari hálfleik með magnaðri endurkomu.

Í rúmlega þriggja áratuga sögu úrvalsdeildarinnar er það afar sjaldgæft að lið sem eru þremur mörkum undir í hálfleik vinni leikinn.

Aðeins í þriðja sinn í úrvalsdeildinni

Raunar var þetta einungis í þriðja skipti sem það gerist. Það gerðist síðast í október árið 2003 þegar Wolverhampton Wanderers vann 4:3-sigur á Leicester City eftir að síðarnefnda liðið hafði verið 0:3 yfir í leikhléi.

Þar á undan hafði Manchester United orðið fyrst liða í úrvalsdeildinni til að afreka þetta í september árið 2001. Liðið var þá 0:3 undir í hálfleik gegn Tottenham Hotspur á White Hart Lane.

Rauðu djöflarnir skoruðu hins vegar fimm mörk í síðari hálfleik og unnu glæsilegan 5:3-sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert