Lygileg endurkoma Bournemouth

Dominic Solanke úr Bournemouth og Reece Burke hjá Luton eigast …
Dominic Solanke úr Bournemouth og Reece Burke hjá Luton eigast við í kvöld. AFP/Adrian Dennis

Bournemouth vann í kvöld ótrúlegan heimasigur á Luton, 4:3, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Luton komst í 3:0 og þannig voru hálfleikstölur. Bournemouth svaraði hins vegar með fjórum mörkum í seinni hálfleik.

Tahith Chong kom Luton yfir strax á 9. mínútu og Chiedozie Ogbene bætti við öðru marki á 31. mínútu. Ross Barkley gerði svo þriðja mark Luton á 45. mínútu og stefndi í gott kvöld fyrir nýliðana.

Bournemouth neitaði hins vegar að gefast upp. Dominic Solanke kom heimamönnum á bragðið á 50. mínútu og Illia Zabarnyi bætti við öðru marki á 62. mínútu.

Eftir það var komið að Antoine Semenyo. Jafnaði hann metin á 64. mínútu og skoraði hann svo sigurmarkið á 83. mínútu.

Bournemouth er í 13. sæti deildarinnar með 35 stig. Luton er í 18. sæti með 21 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert