Havertz kom Arsenal á toppinn

Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP/Justin Tallis

Arsenal fékk Brentford í heimsókn í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Leikurinn var afar mikilvægur fyrir Arsenal sem tyllti sér á topp deildarinnar með sigri, 2:1.

Eftir leik er Arsenal komið á topp deildarinnar með 64 stig, stigi á undan Liverpool og tveimur á undan Manchester City. Brentford er hinsvegar enn í 15. sæti með 26 stig, fimm stigum frá fallsæti.

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en heimamenn höfðu öll völd á vellinum, liðið hélt boltanum vel en náði ekki að skapa sér hættuleg færi framan af leik.

Á 19. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Ben White átti þá fyrirgjöf frá hægri sem rataði beint á kollinn á Declan Rice sem skoraði með góðum skalla framhjá Mark Flekken í marki gestanna.

Declan Rice í þann mund að skora fyrsta mark leiksins.
Declan Rice í þann mund að skora fyrsta mark leiksins. AFP/Justin Tallis

Fyrri hálfleikur virtist vera að líða undir lok þegar jöfnunarmark Brentford leit dagsins ljós og er óhætt að segja að það hafi verið fært þeim á silfurfati. Gabriel lagði þá boltann til baka á Aaron Ramsdale, markvörð Arsenal. Ramsdale tók sér alltof langan tíma í að sparka boltanum frá og náði Yoane Wissa að renna sér fyrir hreinsunina hjá enska markverðinum. Af Wissa fór boltinn í markið og leikurinn orðinn jafn. Ramsdale spilaði þennan leik þar sem David Raya var ólöglegur en Spánverjinn er á láni hjá Arsenal frá Brentford.

Arsenal liðið pressaði mikið á gestina í upphafi seinni hálfleiks en það voru gestirnir sem voru nálægt því að komast yfir á 55. mínútu þegar Ivan Toney sá að Ramsdale stóð of framarlega í marki heimamanna. Englendingurinn lét vaða af 40 metra færi og var nálægt því að setja boltann yfir Ramsdale sem náði þó að verja vel.

Arsenal var nálægt því að komast aftur yfir þegar Gabriel átti skalla að marki sem Vitaly Janelt bjargaði á marklínu á 59. mínútu.

Aaron Ramsdale gerði barnaleg mistök í leiknum í dag.
Aaron Ramsdale gerði barnaleg mistök í leiknum í dag. AFP/Justin Tallis

Brentford var nálægt því að komast yfir á 71. mínútu þegar Nathan Collins átti góðan skalla að marki heimamanna en Aaron Ramsdale varði vel í markinu.

Declan Rice komst nálægt því að skora annað mark sitt á 74. mínútu þegar hann átti hörkuskot af löngu færi sem endaði í stönginni.

Sigurmarkið kom á 86. mínútu leiksins þegar Kai Havertz stangaði fyrirgjöf Ben White í markið. White fékk þá boltann frá Ödegaard og átti sína aðra stoðsendingu í leiknum þegar hann fann kollinn á Havertz. Þjóðverjinn gerði engin mistök og skallaði boltann í markið framhjá Flekken og braust út mikill fögnuður á Emirates vellinum í Lundúnum.

Þrátt fyrir sjö mínútur í uppbótartíma náði Brentford ekki að jafna leikinn og endaði leikurinn með sigri heimamanna sem eru nú í efsta sæti deildarinnar.

Arsenal 2:1 Brentford opna loka
90. mín. Saman Ghoddos (Brentford ) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert