Kært eftir leikinn við Liverpool

Darwin Núnez fagnar sigurmarkinu sem liðsmenn Forest voru ósáttir við.
Darwin Núnez fagnar sigurmarkinu sem liðsmenn Forest voru ósáttir við. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnusambandið hefur kært úrvalsdeildarfélagið Nottingham Forest vegna hegðunnar leikmanna og þjálfarateymis félagsins eftir tapið gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardag, 1:0.

Þá hefur Steven Reid úr þjálfarateyminu einnig verið kærður vegna hegðunar sinnar í garð dómara leiksins eftir leik. Hann lét dómarateymið heyra það eftir að hann fékk rautt spjald.

Forest og Reid hafa til miðvikudagsins 13. mars til að svara kærunni. Forest-menn voru allt annað en sáttir við sigurmark Liverpool á níundu mínútu uppbótartímans.

Forest var með boltann nálægt vítateig Liverpool á sjöundu mínútu uppbótartímans, en leikurinn var þá stöðvaður vegna meiðsla Ibrahima Konaté. Dómarateymið lét Liverpool byrja með boltann eftir atvikið, í stað Forest, og skömmu síðar skoraði Darwin Núnez sigurmarkið. 

Við það varð allt vitlaust á varamannabekk Forest og voru leikmenn sömuleiðis allt annað en sáttir. Þá var Evangelos Marinakis, eigandi Forest, mættur við hliðarlínuna.

Paul Tierney dæmdi leikinn en hann dæmir ekki í deildinni um næstu helgi vegna mistakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert