Haaland: „Við erum á leiðinni“

Erling Haaland héldu engin bönd í gærkvöldi.
Erling Haaland héldu engin bönd í gærkvöldi. AFP/Justin Tallis

Erling Haaland var að vonum ánægður eftir að hann skoraði fimm mörk í 6:2-sigri Manchester City á Luton Town í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöldi.

„Þetta er allt að koma. Við erum á leiðinni,“ sagði Haaland í samtali við ITV eftir leik.

Norski markahrókurinn hefur átt í meiðslavandræðum hluta tímabils og var spurður út í líkamlegt form sitt.

„Ég er að nálgast mitt besta form. Loksins er mér farið að líða vel. Það er frábær tilfinning.

Það eru spennandi tímar fram undan. Við erum reiðubúnir að sækja til sigurs,“ sagði Haaland.

Man. City vann þrennuna á síðasta tímabili og á góðan möguleika á að endurtaka leikinn í ár þar sem liðið er einu stigi á eftir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, stendur vel að vígi eftir fyrri leik sinn í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og er komið í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert