Lygileg dramatík í sigri United

Hetjan Kobbie Mainoo og Daninn Rasmus Höjlund sáttir í leikslok.
Hetjan Kobbie Mainoo og Daninn Rasmus Höjlund sáttir í leikslok. AFP/Darren Staples

Hinn ungi Kobbie Mainoo var hetjan er Manchester United komst í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir ótrúlegan sigur á Wolves, 4:3, í Wolverhampton í kvöld. 

Manchester United er nú með 35 stig í sjöunda sæti en Wolves er í ellefta sæti með 29. 

Allt annað Manchester United lið mætti til leiks í fyrri hálfleik heldur en sést hefur á tímabilinu. 

Marcus Rashford, sem var óvænt í byrjunarliði United eftir að hafa verið skilinn eftir heima um helgina, kom gestunum yfir á fimmtu mínútu leiksins með frábæru skoti í fjærhornið eftir sendingu frá Rasmusi Höjlund. 

Á 22. mínútu tvöfaldaði Höjlund forskot United-manna er sending Shaw fór af Craig Dawson, varnarmanni Wolves, í gegnum klofið á Jose Sá, markverði, og í Danann og inn, 2:0, sem voru hálfleikstölur. 

United-menn fagna glæsimarki Marcus Rashford.
United-menn fagna glæsimarki Marcus Rashford. AFP/Darren Staples

Pablo Sarabia minnkaði muninn fyrir Wolves á 71. mínútu úr vítaspyrnu. Þá braut Casemiro á Pedro Neto inn í teig United. Sarabia skoraði síðan örugglega af punktinum, 2:1.

United var ekki lengi að ná forystunni á ný en fjórum mínútum síðar skoraði varamaðurinn Scott McTominay með skalla eftir sendingu frá Bruno Fernandes, 3:1.

Max Kilman, fyrirliði Wolves, minnkaði svo muninn aftur í eitt mark á 85. mínútu þegar að boltinn féll fyrir hann í teig United og hann kom honum framhjá Andre Onana í marki United, 3:2. 

Pedro Neto jafnaði síðan metin fyrir Wolves á sjöttu mínútu uppbótartímans með laglegu marki. Þá fékk hann boltann hægra megin í teignum og smellti honum í gegnum klofið á Raphael Varane og í netið, 3:3. 

Pedro Neto fagnar jöfnunarmarki Wolves.
Pedro Neto fagnar jöfnunarmarki Wolves. AFP/Darren Staples

Þó var sagan ekki öll en mínútu síðar tryggði Kobbie Mainoo United ótrúlegan sigur. Þá fór hann afar illa með varnarmenn Wolves og smellti honum í fjærhornið neðra, 4:3. Nauðsynlegur sigur Manchester-félagsins því staðreynd. 

Wolves 3:4 Man. United opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert