Gylfi tengir illa við miðjumenn Everton (myndskeið)

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Everton þurftu að sætta sig við 2:0-tap á heimavelli gegn nýliðum Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton í leiknum og leik allan leikinn sem sóknarsinnaður miðjumaður.

Gylfi hefur farið rólega af stað á þessari leiktíð en hann hefur lagt upp eitt mark í sex deildarleikjum á leiktíðinni. Íslendingurinn hefur ekki fundið taktinn og hefur aðeins verið gagnrýndur af enskum fjölmiðlamönnum. Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, var einn af sérfræðingum Vallarins sem var á dagskrá Símans Sport í gær.

„Ég get ekki sagt að Gylfi sé ekki að staðsetja sig rétt í því leikkerfi sem þeir eru að spila,“ sagði Freyr í þættinum. „Það eru ákveðin atriði sem hann mætti gera betur þó að ég ætli ekki að fara neitt sérstaklega út í það núna. Það að hann komist ekki í boltann í leikjum Everton er ekki honum að kenna.“

„Hann er mjög duglegur og hann les leikinn frábærlega. Hann staðsetur sig rétt en tengingin milli hans og miðjumanna Everton, þeirra Fabian Delph og Morgan Schneiderlin, er ekki góð, og sérstaklega milli hans og Schneiderlin,“ sagði Freyr meðal annars.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið rólega af stað með Everton …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið rólega af stað með Everton í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert