Mourinho ýjar að brottför Mkhitaryans

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Ummæli Josés Mourinhos, knattspyrnustjóra Manchester United, um Armenann Henrikh Mkhitaryan á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins gegn West Bromwich á sunnudag renna enn frekari stoðum undir mögulega brottför kappans frá félaginu en hann hefur aðeins einu sinni í síðustu átta leikjum verið í 18 manna leikmannahópi Manchester United.

Mourinho hefur áður látið hafa það eftir sér að aðrir leikmenn eigi einfaldlega meira skilið en Mkhitaryan að vera í liðinu.

„Hver einasti leikmaður er falur fyrir rétt verð,“ sagði Mourinho svo í dag.

„Ef leikmaður er ekki ánægður og rétt tala er boðin í hann að okkar mati, sem gerðist með Memphis (Depay) og Morgan (Schneiderlin), þá myndi ég aldrei segja nei,“ sagði Mourinho um Mkhitaryan.

Spurður út í möguleg kaup United í janúar sagðist Mourinho ekki vera mikill aðdáandi þess. „En stundum koma upp aðstæður þar sem þú færð tækifæri sem þú mátt ekki missa af,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert