Síðasti naglinn í líkkistuna hjá Rooney

Rooney á varamannabekknum í gærkvöld.
Rooney á varamannabekknum í gærkvöld. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að síðasti naglinn hafi verið sleginn í líkkistu fyrirliðans Wayne Rooney hjá Manchester United þegar hann var látinn sitja allan tímann á varamannabekknum í leiknum gegn Anderlecht í Evrópudeildinni í gærkvöld.

Rooney hitaði lengi upp á hliðarlínunni í seinni hálfleiknum og í framlengingunni en fékk ekki tækifæri á að spreyta sig en fyrirliðinn kom aftur inn í leikmannahóp United í gær eftir nokkurt hlé vegna meiðsla.

„Ég held að hann hafi verið sár og svekktur að hafa ekki fengið að taka einhvern þátt í leiknum og ég held að þetta hafi verið síðasti naglinn í kistuna hjá honum. Sem markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi þá hlýtur hann að vera alveg brjálaður en ef hann er það ekki þá hefur hann augljóslega misst auga tígrisdýrsins,“ sagði Keane á ITV-sjónvarpsstöðinni í gær.

Rooney hefur átt afar erfitt uppdráttar með Manchester-liðinu á tímabilinu bæði vegna meiðsla og þá hefur hann fallið æ aftar í goggunarröðina hjá knattspyrnustjóranum José Mourinho. Flest bendir til þess að Rooney yfirgefi Manchester United í sumar en hann kom til félagsins frá Everton árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert