Fjögur lið komin í baráttu um Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Fjögur lið eru komin í startholurnar í kapphlaupinu um að fá Gylfa Þór Sigurðsson til liðs við sig frá Swansea City í sumar.

Verðmiðinn á Gylfa Þór er 35 milljónir punda, tæpir 5 milljarðar króna, ef marka má frétt í enska blaðinu Daily Mail en Gylfi hefur verið ljósið í myrkrinu í liði Swansea á tímabilinu. Hann hefur skorað 8 mörk og lagt upp 11 og hefur verið langbesti leikmaður liðsins á tímabilinu.

Everton, West Ham, Southampton og Newcastle eru liðin sem hafa sett Gylfa á innkaupalista sinn. Everton reyndi að fá Gylfa Þór til liðs við sig fyrir tímabilið en tilboðinu var hafnað af forráðamönnum velska liðsins.

Everton hefur ekki gefist upp á að fá Íslendinginn í sínar raðir og af þessum fjórum félögum þykir líklegast að Everton vinni kapphlaupið um að fá hann til liðs við sig en mjög líklegt er að liðið spili í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert