Of opinn og alls ekki góður

Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði seinna mark Víkings.
Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði seinna mark Víkings. mbl.is/Óttar Geirsson

„Leikurinn var allt of opinn og alls ekki nógu góður hjá okkur. Það sem við lögðum upp með gekk ekki upp,“ sagði Selma Dögg Björgvinsdóttir fyrirliði Víkings í samtali við mbl.is í kvöld.

Víkingur mátti þola stórt tap, 7:2, gegn Íslandsmeisturum Vals í 3. umferð Bestu deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld. Staðan í hálfleik var 2:1 fyrir Val, þar sem annað markið kom í lok hálfleiksins.

„Við náðum að halda þessu í leik en svo fór þetta eins það fór í seinni hálfleik. Þetta tapaðist í seinni hálfleik. Við ætluðum að vinna þennan seinni hálfleik en þetta féll ekki með okkur í dag.

Þær skora eiginlega helminginn af mörkunum úr föstum leikatriðum. Það er ekki boðlegt, þótt það sé það sem þær eru búnar að vera sterkar í síðustu ár. Svo opnaði þetta víti í lok fyrri leikinn.“

Bakvörðurinn Emma Steinsen Jónsdóttir var í marki Víkings síðasta kortérið eða svo vegna meiðsla Kötlu Sveinbjörnsdóttur. Valur nýtti sér það og bætti við mörkum í lokin. „Það munar öllu að vera ekki með varamarkvörð á móti svona sterku liði.“

Selma skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í kvöld en það huggar hana lítið þegar hún fer á koddann í kvöld. „Eiginlega ekki, 7:1 eða 7:2 skiptir ekki miklu. Það er samt ágætt að vera komin á blað en það skiptir litlu í stóra samhenginu,“ sagði Selma.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert