Bikarinn fór í Voga

Þróttarar með sigurlaunin í leikslok í gærkvöld.
Þróttarar með sigurlaunin í leikslok í gærkvöld. Ljósmynd/Helgi Þór Gunnarsson

Þróttur úr Vogum vann sinn annan titil í sögunni í meistaraflokki karla í knattspyrnu í gærkvöld með því að sigra Hauka, 3:2, í úrslitaleik B-deildar deildabikarsins á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Frosti Brynjólfsson og Fannar Óli Friðleifsson komu Haukum í 2:0 á fyrst hálftímanum. Ásgeir Marteinsson jafnaði metin með tveimur mörkum fyrir Þróttara og Jóhannes Karl Bárðarson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

Þróttur varð meistari 2. deildar árið 2021 og lék í fyrsta og eina skiptið til þessa í 1. deild árið 2022.

Liðið endaði í 4. sæti 2. deildarinnar í fyrra og Haukar enduðu þar í sjöunda sætinu. Liðin unnu sinn hvorn riðilinn í deildabikarnum og í undanúrslitum vann Þróttur sigur á Kára frá Akranesi, 2:1, en Haukar unnu Austfjarðaliðið KFA, 3:1.

Keppni í 2. deild karla hefst um næstu helgi og þar leika Þróttarar við KFA á Reyðarfirði en Haukar taka á móti Hetti/Hugin á Ásvöllum.

Ásgeir Marteinsson, til hægri, skoraði tvö fyrri mörk Þróttar og …
Ásgeir Marteinsson, til hægri, skoraði tvö fyrri mörk Þróttar og hér gera leikmenn liðsins sig klára fyrir leik. Ljósmynd/Helgi Þór Gunnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert