Fimmtán ára strákur jafnaði fyrir Fram á Hlíðarenda

Patrick Pedersen og Fred Saraiva eigast við á Hlíðarenda í …
Patrick Pedersen og Fred Saraiva eigast við á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og Fram skildu jöfn 1:1, í fjórðu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld á Hlíðarenda.

Patrick Pedersen kom Valsmönnum yfir á 53. mínútu en Viktor Bjarki Daðason, 15 ára gamall varamaður, jafnaði fyrir Fram á 90. mínútu.

Framarar eru þá komnir með 7 stig en Valsmenn eru með 5 stig og hafa aðeins unnið einn sigur í fyrstu fjórum umferðunum.

Framarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru sterkari fyrstu 10-15 mínúturnar. Frederik Schram í marki Vals þurfti að taka vel á því á 7. mínútu þegar hann varði í tvígang, fyrst fast skot Magnúsar Þórðarsonar frá vítateig og í kjölfarið skot Más Ægissonar úr þröngu færi vinstra megin.

Leikurinn jafnaðist eftir þetta og engu munaði að Gylfi Þór Sigurðsson kæmi Val yfir á 18. mínútu. Hann fékk boltann í dauðafæri eftir skyndisókn og sendingu Jónatans Inga Jónssonar, renndi boltanum framhjá Ólafi markverði en Tiago Fernandes kom á ferðinni og bjargaði á marklínunni á ævintýralegan hátt.

Kennie Chopart átti hörkuskot að marki Vals frá vítateig á 23. mínútu og Frederik varði vel í horn.

Eftir það var lítið um færi í fyrri hálfleiknum, sóknir á báða bóga, en í blálok uppbótartímans átti Alex Freyr Elísson hættulegan skalla inn að marki Vals þar sem varnarmaður skallaði frá við marklínuna. Staðan var því 0:0 í hálfleik.

Valsmenn misstu Kristin Frey Sigurðsson meiddan af velli eftir 40 mínútna leik. Rúnar Kristinsson gerði tvöfalda skiptingu hjá Fram í hálfleik og Kennie Chopart fór þar nokkuð óvænt af velli.

Gylfi lagði upp fyrir Patrick

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu forystunni á 52. mínútu. Markið var einfalt og vel gert, Gylfi Þór Sigurðsson með fullkomna hornspyrnu frá vinstri og Patrick Pedersen skallaði af markteig niður í hægra hornið, 1:0.

Framarar ógnuðu lítið framan af seinni hálfleik og á 68. mínútu fékk Tryggvi Hrafn Haraldsson gott færi til að bæta við marki fyrir Val en hitti ekki markið úr miðjum vítateig vinstra megin.

Það var ekki fyrr en a lokamínútunum að Framarar fóru að ná einhverri pressu að marki Valsmanna sem hins vegar vörðust af öryggi og gáfu ekki færi á sér. Fátt benti til annars en þeir myndu sigla sigrinum heim.

En á 90. mínútu fengu Framarar aukaspyrnu 25 metra frá marki. Fred Saraiva sendi inn í vítateiginn, Þorri Stefán Þorbjörnsson skallaði inn að markinu og hinn ungi Viktor Bjarki Daðason sendi boltann í netið af markteig, 1:1. Hann hafði komið inn á sem varamaður um 20 mínútum fyrir leikslok í sínum fyrsta leik á þessu tímabili.

Óvænt stig en á margan hátt verðskuldað miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn var hjá Frömurum, og þeir sýndu mikinn karakter með því að sækja stigið á lokakafla leiksins.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 1:1 Fram opna loka
90. mín. Viktor Bjarki Daðason (Fram) skorar 1:1 - Aukaspyrna frá Fred inn í vítateiginn, Þorri Stefán skallar inn að markteig og hinn ungi Viktor Bjarki sendir boltann í netið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert